27.12.2004

vinnogflensujól...

Þriðji dagur jóla runninn upp og ég held að megi fullyrða að þetta hafa verið ójólalegustu jól sem ég man eftir.
Ég var að vinna til tvö á aðfangadag, var e-ð tuskuleg en samt fínn dagur í vinnunni. Brunaði til Keflavíkur, kíkti við að einum stað áður en ég fór heim til ömmu (sem var í London) til að fara í jólabað og komast í einlægt jólaskap. Mér tókst nokkuð vel upp, fór í gott bað, hlustaði á Sálmana hennar Ellen, fór í falleg föt og puntaði mig. Var komin heim til mömmu um 1/2 sex og bara nokkuð mikil jól í mér. Fljótlega eftir að við settumst niður til að borða kom yfir mig alveg óstjórnleg þreyta og sama hversu ég reyndi að hressa mig við gékk það ekki. Pakkarnir voru skemmtilegir, ég fékk mikið góðra gjafa. Fljótlega eftir að við lukum við eftirréttinn var þreytan orðin svo mikil að ég sá mér ekki annað fært en að yfirgefa veisluna. Ég ætlaði rétt að leggjast út af áður en ég hingdi og óskaði fólki gleðilegra jóla en í millitíðinni steinsofnaði ég og klukkan ekki orðin ellefu.
Ég svaf eins og steinn í ellefu tíma, fór á fætur og brunaði til Reykjavíkur í vinnuna, í betri fötum en ég hef nokkru sinni farið áður í vinnu í, og var að hugsa hvort kæmi á undan, jólaskapið eða hegðunin sem síðan leiðir af jólaskapi. Fór ég í pils og fínt í vinnuna af því að það voru jól, eða olli jólaskapið því að ég valdi þessi föt fram yfir gallbuxur og bol sem ég fer venjuleg í?
Vinnudagurinn góður en ég var þreytt, slöpp og hnerrandi mjög, en samt í stuði. Þegar ég kom heim um sex leitið var hinsvegar eins og allt loft færi úr mér í einni svipan og ég var alveg búin á því. Í stuttu máli má segja að síðan sex á jóladag og þar til núna, hef ég varla vitað af mér. Það helltist yfir mig þetta líka rosalega höfuðkvef og hiti með 30 hnerrum á klukkustund. Núna hefur hitinn lækkað, ég er farin að anda aðeins í gegnum nefið og komin niðrí 10 hnerra á klukkustund. Allt á réttri leið.
Ég var að hugsa, eins ójólalegt og mér fannst tilhugsunin um að vera að vinna öll jólin (ég átti að vera að vinna bæði í gær og í dag líka) þá er miklu jólalegra að vera að vinna en að liggja heima með flensu. Það er aldrei góður tími til að vera með flensu. Það er leiðinlegt að vera með flensu þegar ég á að vera að vinna, samt eiginlega leiðinlegra þegar ég á ekki að vera að vinna. Það er vont að vera með flensu um jól, áramót, páska og á öðrum hátíðum og veisludögum. Leiðinlegt að vera með flensu á sumrin, óheppilegt í upphafi skólaannar, ennþá óheppilegra þegar þarf að skila verkefnum og/eða í prófum. Þegar allt er á botninn hvolft er enginn tími góður til að vera með flensu.
Ég er búin að sannreyna að flensusprauta er ekki trygging fyrir flensulausum vetri. Í eina skiptið sem ég hef fengið slíka sprautu var það upphafið af slappasta vetri sem ég man eftir. Það var ekki svo mikið um alvarlegar kvefpestir heldur geysuðu þann veturinn fjöldinn allur af magapestum sem virtust allar finna mig. Ég hef líka reynt að hlýrra loftslag miðjarðarhafsins er flensulaust, heldur þvert á móti, þar virðast eiga heima mér óþekktir stofnar flensu sem að líkaminn átti erfiðara með að hrista af sér ef eitthvað er. Meira að segja hrakti sjónvarpsþáttur sem ég horfði á um daginn um vítamín þá einlægu trú mína að c-vítamín gæti verið vörn við flensum.

Niðurstaða: flensa er óflýjanlegur hluti af árinu sem hittir aldrei vel á.

Kostir: Hægt að horfa á hvaða vitleysu sem er í sjónvarpinu því það situr hvort eð er ekkert eftir. Mesti kosturinn er sá hversu vel mér líður þegar fer að rofa til í höfðinu að finna hversu skýr hugsunin getur verið... er ekki alveg komin þangað núna, en hlakka óstjórnlega til.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim