9.1.2005

Berlín

Berlín er fín borg, ég er búin að skoða smá. Ég gisti í Prenzlauerberg sem er kúl og hipp hverfið, margt skemmtilegt að sjá hér, hlakka til að ganga meira um á virkum degi og sjá hvernig allt virkar. Ég er líka búin að fara í Kreuzberg sem er Tyrkjahverfið fór á stórskemmtilegan markað þar sem hægt var að finna allskonar skemmtilegt. Ég kíkti þar líka inní Tyrkneskann stórmarkað sem var stórskemmtilegur, ótrúlegt hvað það sem fólk kaupi, ekki síst sér til matar, virðist segja mikið til um menningu þeirra.

Ég er svoldið að reyna að æfa mig í þýsku og óska þess að ég hefði verið aðeins viljugri að læra hana þegar reynt var að þröngva henni inn á mig á sínum tíma. Ég sé ekki betur en þrátt fyrir mikla mótstöðu frá minni hálfu hafi Öldu Jens og hinum kennurunum tekist nokkuð vel upp. Ekki það að ég sé að slá í gegn neitt síður en svo. Satt best að segja skilur mig varla nokkur maður þó ég reyni að vanda mig mikið og ef mér tekst að gera mig skiljanlega þá skil ég nánast ekki orð þegar fólk reynir að svara mér.
Ég reyndi t.d. að panta mér sódavatn um daginn, vissi að ég ætti að byðja um vatn með koltvísýring, ko..... e-h. Byrjaði á því að byðja um Wasser mit koldkfjkldjgk, var ekki alveg viss hvernig ég ætti að enda orðið en var að vona að mér hefið tekist að gera mig skiljanlega. Tókst ekki. Þá reyndi ég að segja sparkling Wasser, bubbling Wasser og útskýra að það væri til venjulegt vatn og svo öðruvísi vatn og sýndi goshver með miklum tilþrifum. Eftir dágóða stund kom barþjónninn með sódavatn mér til mikillar ánægju, ég ákvað að nota tækifærið og læra í eitt skipti fyrir öll hvernig sódavatn er á þýsku -Wasser- ... það þarf sem sé að byðja sérstaklega um að fá ókolsýrt vatn. Ég komst svo af því nokkru síðar að ég bar orðið Wasser vitlaust fram í þokkabót... Ég ætla að halda áfram að reyna fullviss um það að einhvern daginn geri ég mig skiljanlega og geng stolt á braut.

Í Berlín virðast flestir hundar gamlir, ég veit ekki hvað veldur en ég hef það á tilfinningunni að þeir sé barasta gamlir, gráir, gugnir og ekkert voðalega kátir.

Í Berlín er borg reiðufjár. Hér er ekki hlaupið að því að fá að nota greiðslukort, hvort heldur sem er debet eða kredit. Það er undaleg tilfinning að þurfa að hugsa fyrir því að vera með pening en ég vona að það skili sér í meiri meðvitund um eyðsluna.

Berlín er mjög grá á þessum árstíma, ég hef bara einu sinni séð glitta í bláan himinn en það var svo snemma morguns að ég snéri mér á hina hliðina og hélt áfram að sofa.

Töfrar bíóhúsa liggja meðal annars í því að þar er myndast einhversskonar rými sem gerir það að verkum að ég gleymi stað og stund og ég gæti verið stödd hvar sem er í heiminum á meðan ég horfi á myndina. Hinsvegar verður staðsetningin mjög áþreyfanleg eftir mynd þegar ég geng aftur út í borgina.

Íslendingum búsettum erlendis finnst ekki leiðinlegt að tala um Ísland. Var í gær í hóp með 3 öðrum Íslendingum og einum Ítala og uppgötvaði mér til mikillar hrellingar þegar vel var liðið á kvöldið að stórum hluta þess hafði verið varið í að tala um Ísland. Þegar ég hafði vakið máls á þessu fór restin af kvöldinu í það að tala um af hverju Íslendingar tala svona mikið um Ísland á ferð erlendis...

Í dag borðaði ég æðislegan Líbanskan mat og las littla prinsinn, gékk um í nágreni Kastanienallee sem sögð er hve mest hipp og kúl gata Berlínar, fullt af flotum hönnunarbúðum, bestu kaffihúsin og hollasti skyndibitinn. Hlakka til að skoða hana í erli.

http://www.berlin-tourist-information.de/index.en.php


1 Ummæli:

Blogger Lára sagði...

Það er greinilega mikið að gera hjá þér, og mikið gaman.
Áfram Sif!

10:26 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim