11.2.2006

karlmannleg borvél

Um daginn fékk ég lánaða borvél til að bora fyrir nokkrum hillum og snögum sem þurftu uppá vegg. Þegar ég kom heim með borvélina sá ég að hún var karlmannleg með eindæmum. Þrátt fyrir væga borvélafópíu lét ég slag standa og réðst til atlögu við fyrsta gatið. Lenti þá strax á fyrirstöðu og ákvað að borvélafópían mætti alveg taka yfir. Hringdi ég þá í eiganda borvélarinnar og bauð uppá kaffihlaðborð gegn nokkrum holum, því boði var tekið.
Nokkrum dögum seinna kom hann og stóð sig eins og hetja, fyrsta, önnur og þriðja hillan upp inní herbergi, og hilla upp inná baði. Þegar hann var að byrja á snögunum var bankað á dyrnar. Fyrir utan stóð kona sem ég hafði aldrei séð áður en kynnti sig sem nágranna minn og sagði svo "det er et hul ude på mit badeværelse", ég hváði nú bara og hún endurtók sig. Ég gat ekki ímyndað mér að ég væri að skilja konuna rétt og alveg viss um að nú væri ég að upplifa danskar samskiptahefðir milli nágranna og kallaði því á Ólöfu. Konan endurtók aftur - að það væri hola inná baði hjá henni - og ég sá á svipnum á Ólöfu að hér var ekki um neina háþróaða samskiptatækni að ræða heldur hefði karlmannlega borvélin fundið sér leið inní íbúð nágranna míns. Okkur var boðið að skoða holuna, sem var ansi vegleg. Ég átti erfitt með nokkuð annað en að koma í veg fyrir að fara að skellihlæja en Ólöf, í allri sinni auðmýkt, bauðst til að borga viðgerðir, grafalvarleg á svip.
Síðan höfum við ekki heyrt frá nágranna okkar en hillan inná baði er alveg að standa sig.

4 Ummæli:

Blogger Heiða sagði...

Þetta er rosalega fyndin og skemmtileg saga. Bara skella í hundrað stuttar svona sögur, og gefa út bók! Viss um að hún myndi seljast. Snilld! Er alveg að deyja úr útlandalöngun, ég sem er nýkomin heim... það er nú soldið stutt til Danmerkur...?!?

7:16 e.h.  
Blogger Sif sagði...

Það er nefnilega svo gaman að sumir dagar og atburðir bjóða uppá skemmtilegar sögur, vonandi ná þær 100 fljótlega. Gaman að þú skemmtir þér.
Já, heyrðu, ef ég man rétt að þá eru um 3 klst aðra leið og 3:15 hina til Kaupmannahafnar, og gisting og hjól í boði fyrir gott fólk. Velkomin hvenær sem er, ekki samt koma í kringum 25. mars því þá verð ég á Íslandi.

11:26 e.h.  
Blogger Lára sagði...

Hahahahahaha!
Heldurðu að hillan geri nokkuð gat í gegn, með tímanum?
Hahahahahaha! Og kellan kannski á klóinu á meðan, og þú að tannbursta þig... sé þetta alveg fyrir mér :)

5:16 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Nokkuð fyndið. :)

12:58 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim