6.4.2005

Ferð og hugmyndaflug

Núna er ég komin vestur á Bíldudal, ákvað að skreppa og læra og læra, og hitta pabba og frú. Kom við bæði á Bifröst og Grundarfirði á leiðinni, mjög gaman og skemmtilegt. Ég er samt að komast að því að ég er að verða of mikið borgarbarn, hef áhyggjur af færð á vegum og finnst ég verða komin voða langt frá siðmenningunni.
Hér er ég svo stödd með ýmsa svartfugla tegnundir (það væri hægt að halda að ég þekkti nöfnin, en...) út á sjó fyrir neðan hús, haninn er með unglingaveiki og 7 hænur við hliðina á húsinu (og ég á enn eftir að spæla mér nýorpið egg) og jarmandi rollur fyrir ofan hús. Það er kannski ekki nema von að mér finnist siðmenningin langt undan.
Í fyrrinótt gerði feikivont veður, ég glaðvaknaði um miðja nótt og það fór um mig nokkur hrollur. Lætin í hafinu voru ógurleg, það kvein í óþéttum gluggunum og ég varð sem snöggvast mjög meðvituð um að húsið stæði við fjallsrætur.
Það eru svaka fínar líkamsræktargræjur hér sem ég hef aðgang að og ég er búin að vera dugleg við að hlaupa á bretti og gera góðar æfingar. Ég held ég sé loksins búin að fatta kikkið við að hlaupa á bretti og get því nú hér með látið af fordómum mínum í garð innanhússgöngum og drifið mig í líkamsrækt þegar ég kem aftur suður, ég ætla nú samt að halda áfram í sundboxinu með.
Annars er borgarefinn þrautseigur í mér, spáin er ekkert sérlega glæsileg og ég er með bílinn á sumardekkjunum í Grundarfirði, ég er búin að sætta mig við að komast kannski ekkert á Bifröst um helgina, heldur vera bara aðra helgi á Snæfellsnesinu. En svei og svei, ég tek bara því sem koma skal öllu saman með bros á vör.
Niðurstaðan er nú sú að ég er búin að vera dugleg að læra, kraftur og einbeitning streymir innanfrá með hjálp frá kyrðinni, fjöllunum og hafinu, ég held bara að ég nái að klára flest sem ég setti mér fyrir þó að listinn hafi verið langur. Húrra!!!!!

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim