5.2.2005

bcn-berlín

jæja þá er ég komin aftur til Berlínar og það er voða skemmtilegt.

Síðasta kvöldið mitt í Barcelona fórum við nokkur út að borða saman og þegar eftirrétturinn kom fóru allir að syngja "hún á afmæl´í dag" það var ekki fyrr en það var tendraður tannstöngull og honum stungið í ísinn minn að ég áttaði mig á að ég var afmælisbarn dagsins. Síðan var mér gefin rós og afmælissöngurinn aftur sunginn og svo í þriðja sinn. Þá snéri sér við stelpa af næsta borði, alveg skælbrosandi og sagðist líka eiga afmæli. Ég var ekki alveg með á nótunum enda mánuður í afmælið mitt... þetta var samt ein skemmtilegasta afmælissveisla sem mér hefur verið haldin, allavega sú lang óvæntasta.

Það var sól í Berlín í dag og ég ákvað að nota tækifærið og fara upp í sjónvarpsturninn. Þegar ég kom þangað sá ég að helmingur Berlínarbúa hafði hugsa slíkt hið sama og þegar ég var búin að bíða í nær klukkustund í biðröð og langt eftir enn ákvað ég að reyna aftur síðar. Fór í staðinn á Checkpoint Charlie safnið sem er staðsett þar sem ein af varðstöðvum var milli austur og vestur Berlínar. Það er fyrst og fremst tileinkað þeim sem freistuðust þess að flýja yfir til vesturs og er alveg hreint stórmerkilegt safn sem sýnir svo á mjög skýran hátt að frelsið er ekki sjálfgefið. Þarna vour sýnd alveg ótrúleg dæmi um hvað fólk tók til ráða til að freista þess að fá frelsi og minningar um þá sem mistóksust tilraunir sínar.

Ég er reyndar búin að sjá að ég er frekar léleg í að vera túristi allavega í þeim skilningi að hafa sterka þörf fyrir að rjúka um allt að skoða það sem stendur í bókunum. Berlín er svo sannarlega merkileg borg en kannski er ég bara svo viss um að ég komi hingað aftur að ég er ekkert hrædd um að missa af neinu. Kuldinn hérna núna er líka með þvílíkum eindæmum að það er ekki mjög vænlegt að vera mikið á flakki.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim