2.9.2005

Bækur, stress og litla hafmeyjan

Ég er búin að eiga ótrúlega fínan dag.

Byrjaði á því að fara upp í skóla og reyna að koma stundatöflu saman, það tókst reyndar ekki en ég klára það á mánudaginn.

Fór svo að hitta Nadine, skiptinemastelpu frá Þýskalandi, niðrí bæ þar sem við röltum um og nutum okkar.

Við duttum inná bókamarkað við gamla kirkju, rosa stór salur með öllum mögulegum og ómögulegum notuðum bókum á 12kall (120 kall) stykkið. Nánast ógerlegt að skoða nema lítinn hluta vel, það voru nokkrar bækur sem stukku á mig úr þvögunni. Núna á ég því nokkrar nýjar bækur þ.á.m. bók í þrifnaðarháttum karlmanna og kvenna frá 1894 eftir prófesor í dýragarðs- og sálfræði.

Þegar við vorum á leiðinni heim ákváðum við að tékka hvort það væri hægt að komast ódýrt í leikhús og þá lærði ég alveg frábært trix. Það er hægt að kaupa miða á hálfvirði eftir klukkan fjögur á sýningardegi og ódýrustu miðarni eru í stæði. Trixið er því að kaupa miða í stæði þegar maður veit að það er ekki uppselt og setjast síðan í laus sæti rétt áður en sýningin byrjar (ráð frá miðasölustráknum). Okkur bauðst miðar á Litlu hafmeyjuna sem var að fara að byrja eftir 40 mín. í nýja óperuhúsinu, á 35 kall (350kall), og ákváðum að hlaupa. Fengum okkur pulsu á hlaupum, náðum í vatnastrætó og rétt náðum í óperuhúsið með bókapokana og tómatsósu í munnvikunum. Við smygluðum okkur í ágætis sæti og sýningin byrjaði. Við föttuðum fljótlega að við vorum ekki á óperusýningu heldur ballet... Sýningin var ekkert sérstök, bara ein sena sem ég fílaði vel, en óperuhúsið sjálf er algjört æði, mjög flottur arkítektúr og bara fyrir það alveg þess virði að sjá þessa sýningu. Ég er ákveðin í að gera þetta oftar.

Það er ótrúlega fínt að búa í borg þar sem hægt er að kaupa sér nokkrar bækur, fá sér að borða og fara í óperuna fyrir undir 1500 krónum. Sumstaðar er hreinlega hægt að gera margt bæði skemmtilegt og gott án þess að það þýði hrísgrjón og sojasósa seinnihluta mánaðarinns!

1 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

hvað heldur þú að þú vitir um litlu hafmeyjuna? hún er mjög sterk...og eftir allt sem hún hefur gengið í gegnum!!!

10:58 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim