29.6.2005

Loksins loksins

Já nú er loksins komið að því... Duran Duran tónleikar... einn helsti draumur unglingsáranna verður að veruleika á fimmtudaginn. Ég er alveg orðin sannfærð um að jafnvel villtustu draumar geta orðið að veruleika - þótt það sé löngu eftir að draumarnir eru horfnir inní eilífðina.

Þá er bara að reyna að finna bleika dressið - míní pilsið og leðurblökupeysuna, já og legghlífarnar.

27.6.2005

Það sem af er júní í stuttu máli

Jæja, þá er ég komin í pínu tölvusamband aftur. Ég verð nú að viðurkenna að ég er búin að njóta þess að vera ekki mikið í tengslum við umheiminn undanfarið.


Beðið var um ferðasögu frá Spáni.

Stutt útgáfa er GAMAN GAMAN GAMAN

Miðlungsútgáfa er eitthvað á þessa leið: Fyrstu 5 dagarnir í góðu yfirlæti hjá Evu og Igor sem búa mjög miðsvæðis, við eitt mesta pönkaradópistatorg borgarinnar. Þau eru nýbúin að taka á leigu lítið hús sem er uppá þaki á húsinu þeirra þar sem þau eru að innrétta æfingarhúsnæði/stúdíó fyrir Igor og vinnustofu fyrir Evu sem er myndlistarkona. Húsinu litla fylgir afnot af 3-400 m2 þaki þar sem þau eru með alskyns blóm og matjurtir að ógleymdu hengirúmi sem er alveg frábært. Þau eru bæði frábærir kokkar og þar var borðaður góður matur á milli þess sem ég las í hengirúminu, fór í bíó og naut borgarinnar. Seinnihluta ferðarinnar var ég heima hjá Elenu og Daniel en var mest þar ein þegar ég var heimavið því Daniel þurfti að fara til Úrúgvæ og Elena var að vinna myrkrana á milli.
Annars var þetta bara hefðbundin Barcelona ferð, fór einu sinni á ströndina, í bíó, út að borða og í matarboð og verslaði smá. Ég gerði reyndar eitt alveg nýtt. Ég fór með Christine svissnesku vinkonu minni til Vilanova sem er þorp um 40 mín með lest suður af Bcn í ekta strandar-túristaferð. Notalegt lítið þorp með risastórri strönd og fáu fólki, allavega í miðri viku.
Svo fór ég náttúrulega á eina tónleika með Txell þar sem ég hitti foreldra hennar og þau buðu mér í mat til Mataró sem er þorp um 30 mín norður af Bcn. Það er nú reyndar að verða að hefð að ég fari í mat til þeirra í hvert skipti sem ég kem til Barcelona og mér finnst það mjög notalegt og einhvernvegin það mesta sem ég kemst í tengslum við fjölskyldulíf á Spáni. Mamma hennar er hefðbundin super-kona, sér um heimilið, heitur matur tvisvar á dag, sér um aldraða ættingja sem búa inná heimilunu, áður tengdapabbi hennar sem dó í fyrra og nú öldruð frænka. Pabbi hennar talar eins og hann sé ekta spænsk karlremba en er það alls ekki. Hann var vanur að fá sér vel af koníaki og reykja vindil eftir matinn en hefur gefið hvorutveggja upp að mestu tyggur nú tvo vindla á dag og lætur rauðvínsglas duga. Skemmtilegt fólk sem mér er farið að þykja vænt um.
Ég verð allaf jafn skotin í Barcelona þegar ég fer þangað og langar alltaf mest í heimi til að flytja þangað aftur en skynsemin segir mér að ég hafi ekki mikið að sækja þangað, allavega ekki í bili.

Eftir að ég kom heim er ég búin að bruna einn hring í kringum landið með 14 spánverja. Ferðin gekk bara vel, þrátt fyrir rigningu og rok mest allan tíman og alltaf jafn gaman að upplifa landið með augum ferðamannsins.

Núna er ég í Keflavík og úti er rigning og rok sú Keflavík sem ég kannast hvað best við.

Jájá og svo er ég búin að fá svar frá Köben, er komin inní skólann og þá er bara að tryggja mér húsnæði. Ég er reyndar búin að fá vilyrði fyrir húsnæði fram í október en endilega ef einhver veit af húsnæði frá 21. ágúst og út desember endilega vera í sambandi við mig.

2.6.2005

Hasta la vista


jæja, mikið búið að vera að gera og gerast undanfarið;

Náði að klára önnina í skólanum í vikunni og búin að fá einkunir fyrir allt - það borgar sig sko að skila svoldið seint því þá er styttri bið eftir einkunum!

Fékk brét frá Köben, fæ svar frá þeim í næstu viku og gæti þurft að spýta í lóann og finna húsnæði ef ég fæ inni.

Ég missti framan af hnúa í baráttu við garðslöngu, var í klukkutíma úti í garði að vökva og hálftíma seinn byrjaði að rigna!

Ég drap geitungabarn vopnuð rúðuspreyi og rúðuþurkum, sumarið er komið semsé!

Hitta 87 ára gamlan mann sem var að mála húsið sitt klukkan 6:30 um morgun, hress og kátur maður, vona að ég verði svona hress á hans aldri - hlýtur að vera, spirulina og svona!

Við Táta bonduðum feitt í vikunni, erum orðnar perluvinkonur, alltaf gaman að eignast nýja vini!
Um hádegi í dag var ég búin að fara í klukkutíma göngutúr, þvo 5 þvottavélar, þrífa eina íbúð hátt og lágt, borða tvisvar. Síðan þá er ég búin að þvo 2 vélar í viðbót (allar 7 fóru náttúrulega út á snúru í sumarið), fara í búð, endurvinnsluna og ég veit ekki hvað og hvað, jú ég veit, ég er búin að pakka niður í eina stóra tösku og aðra litla. Í stóru töskunni er meðal annars splúnkuný bikiní og í þeirri litlu er flugmiði því ég er nefnilega að fara til Barca eftir sex tíma.

Sumarfrí - Jibbíjei!

(Nýja bikiníið er einhvernvegin svona sumarlegt á litin)