15.9.2008

Sóta

Okkur hefur fjölgað aðeins, konunum í kotinu. Það hefur borið á því undanfarið að ung ferfætt kisukona hafi lagt leið sína hér inn, í það minnsta yljað sér í gluggaopinu. Á sunnudagsmorguninn kom hún inn mjálmandi og bar sig illa mjög. Ég sá aumur á henni og í stað þessa að reyna að sussumsveija hana út aftur, klappaði ég henni og talaði hlýlega til hennar. Hún tók kveðjunni aldeilis vel og sýndi ekki á sér nokkurt fararsnið. Ég gerðist þá gestrisin með eindæmum og bauð henni uppá gamlan hafragraut með seríós út á. Hún sýndi kurteisi og nartaði í kræsingarnar en stökk svo upp í gestarúm og lagði sig. Þar svaf hún meira og minna í allan gærdag og sefur þar enn að ég held. Ég og meintur eigandi kattarins áttum samtal í dag og stendur til að kisa litla flytjist við tækifæri suður með sjó til lögmæts eigenda. Þangað til verður hún að öllum líkindum gestkomandi á heimili okkar mæðgna.
Kisukonan heitir Sóta.

9.9.2008

Kennslukonan ég

Í dag gerðist ég kennslukona enn og aftur. Mér fannst það furðu gaman. Ég var eiginlega búin að telja mér í trú um að það væri barasta ekkert skemmtilegt. Ég hefði nú getað sagt mér það sjálf að það yrði voða gaman því að börn eru ekkert annað en snillingar. Núna hlakka ég til að vakna 3 morgna í viku til að kenna 1-4 bekk í 2 kennslustundir. Að öðru leiti held ég áfram að sinna hefðbundnu starfi mínu.
Kristín Björg er þó mesti snillingurinn. Hún er alltaf að finna uppá einhverju nýju og var voðalega glöð að komast heim í regluna og á leikskólann. Hún er voðalega mikið að æfa sig þessa dagana í að vera mjög mjög ákveðin. Áðan orgaði hún og orgaði af því að ég vildi ekki hjóla meira með hana. Hún gargaði svo lengi að hún var löngu búin að gleyma af hverju hún var að garga. Ég var svo undrandi lengi vel að ég gleymdi að reyna að dreifa huga hennar. Um leið og ég hætti að vera hissa hætti hún að orga.
Núna orgar hún af því að hún vill ekki fara að sofa og hendir snuddunni sinni fram á gólf svo að ég "verði" að rétta henni hana. Það eru aldeilis spennandi tímar framundan.

8.9.2008

Komin heim

Jæja, þá er sumrinu formlega lokið og haustverkin hafa tekið við af heimsóknum bæði til mín og frá mér.
Haustin hafa nær undantekninglaust markað nýtt uppaf hjá mér, nýtt nám, ný önn, nýtt heimili, jafnvel nýtt land. Þessu hefur alltaf fylgt spenna sem hefur gert haustin skemmtilegri fyrir vikið.
Í fyrsta sinn sem ég man eftir er ég að gera það sama að hausti og það sem af er árinu. Áður en ég kom heim aftur í gær hafði ég af því áhyggjur að mér ætti eftir að leiðast haustið, ekkert nýtt.
Í morgun gekk ég hinsvegar í vinnuna og þegar ég sá litskrúðug fjöllin sem eru að færast í haustskrúðan fann ég fyrir eftirvæntingu og ró. Haustið er yndislegt.