30.8.2005

Ströndin

Í dag fór ég á ströndina hér á Amager. Ég fékk símtal í hádeginu frá öðrum skiptinemum sem buðu mér með á ströndina, sögðust vera að einhverri lestastöð og hvað ég væri lengi að komast þangað. Ég hélt nú að hjólið mitt væri nógu gott þar sem ströndin væri hér við húshornið og sagðist bara hitta þau þar. Þegar ég koma á ströndina sá ég hinsvegar engann sem ég kannaðist við og hringdi í þau. Þá voru þau nú bara komin langleiðina til Svíþjóðar á einhverja strönd þar. Er til önnur strönd en ströndin "mín"???

Ég lék mér því bara við mávana og hafið í smá stund og fór svo að skoða hverfið aðeins betur. Næst ætla ég að muna að spyrja hvert fólk er nákvæmlega að fara því hér er greinilega meira en eitt af hverri sort.

29.8.2005

hjolahjolahjol

Ég vaknaði í nótt við verstu harðsperrur sem ég hef fengið á ævinni í innanlærisvöðva sem ég vissi ekki að ég ætti til... afleiðing gærdagsins. í gær varð ég nefnilega drottning hjólanna hér í borg. Það er ótrúlega fínt og gaman að hjóla hér þar sem stærstu brekkur eru eins og stórar hraðahindranir og borgin verður miklu fallegri og skyljanlegri hjólandi. Það er líka miklu einfaldara að villast á hjóli, ég fór að hitta fólk einhversstaðar og villtist á leiðinni en fann mig aftur mjög fljótlega.

Núna eru harðsperrurnar farnar og ég ætla að fara að hjóla inní danska bjúrókrasíu í sólinni.

28.8.2005

Veislurnar tvær

Í gær voru tvær veislur, sommerfest hér heimavið og lokapveisla kynningarvikunnar í skólanum. Báðar fannst mér þær frekar skrýtnar. Ég er í hálfgerðu áfalli yfir öllum íslendingunum sem eru hér á sveimi. Hitti gamla karatekennara minn frá því ég var 13 ára. Það gekk líka upp að mér kona staðráðin í að fá að vita sem mest um mig á sem styðstum tíma, svoldið svona eins og lítið þorp á Íslandi bara í staðinn fyrir að spyrja hvort maður vinni í rækjunni eða saltfisknum þá er spurt út í skólann sem maður er í... Ég þarf að venjast þessu, er alls ekki vön að vera í íslensku útlandi.
Parýið í skólanum var hinsvegar mjög fjölþjóðlegt. Ég held ég hafi aldrei verið í veislu þar sem fólk hefur verið af jafn ólíkum uppruna. Malasía, Frakkland, Noregur, Pakistan, Ungverjaland, Singapor, Þýskaland, Slóvenía, Spánn, Indland, USA, Mexico, Búlgaría, Ísland, Ítalía, og, og, spennandi, gaman, áhugavert... fólk er svo margvíslegt og samt svo eins e-ð.

Allt lofar góðu en mér finnst ég ekkert endilega vera í Danmörku!

27.8.2005

hjolaveisla

Ég tók gærdaginn í að skoða mig aðeins um. Fór í ævintýraferð um borgina með strætó og komst að því að strætó virkar vel og strætó bílstjórar ekkert of stressaðir til að útskrýra strætó reglur og leiðir fyrir útlendingum, allt mjög afslappað. Í gærkvöldi fór ég svo í skoðunarferð um kolegið og komst að því að það væri hægt að vera hér lengi án þess að fara nokkurntíman út undir ferskt loft. Héðan er innangengt í þvottahúsið, íþróttasalinn, tölvusalinn, barinn, pizzeriuna og örugglega e-ð meira. Á göngunum eru nammi og gossjálfsalar, símasjálfssali og ég veit ekki hvað og hvað. Engin ástæða til að fara of langt ef þannig liggur á manni.
Í morgun eignaðist ég rautt og fagurt hjól fyrir slikk og þegar það verður búið að laga einn ventil (sem gerist líklega bara rétt á eftir) verð ég endanlega til í hvað sem er. Hitt hjólið sem var búið að bjóða mér verður líka gangsett og verður þar með vara- og gestahjól ef á þarf að halda.
Núna er sommerfest í gangi hér úti, ætla að kíkja á það...

25.8.2005

turistadagur

í dag var skyldutúristadagur í skólanum. Ég sá konunglega vitleysu í hellidembu. Fyrst voru það varðmannadúkkurnar sem skiptu um vakt. Svo fórum við að skoða Christiansborgar slottið þar sem stórir skreyttir salir voru skoðaðir í appelsínugulum inniskóm (til að skemma ekki parketið) undir leiðsögn nokkuð skemmtilegs dana.

Ég er búin að fá æðislegt hjól til umráða, búin að kaupa nýtt dekk sem vantaði og fá loforð um hjálp við að setja það undir um helgina og þá verð ég sko drottning hjólabrautana.

Núna ætla ég að fara að prófa þvottahúsið.

24.8.2005

Vantar islenska stafi i title

Hér er fínt að vera. Blöðrur á fótum, þreyta í höfði, góð dýna til að sofa á...

Búin að vera í skólanum að taka þátt í kynningarvikunnni. Það er fólk af alskonar stærðum, gerðum og litum, frá fullt af löndum og flestum trúarbrögðu. Dagskráin hefur verið misspennandi og ekki alltaf jafn áhugaverð.
Í gærkveldi var okkur skiptinemum boðið í danskan kvöldmat... frikkadellur, kartöflusalat og jarðaberjaterta.
Í kvöld var ansi fín kennsla í dönskum þjóðdönsum þar sem allir náðu að gera sig hæfilega að fífli og skemmta sér konunglega.

Sól í hjarta, blíða í borg

22.8.2005

Komin til utlanda

Lífið er alveg búið að vera frábært síðan síðast, mikið að gera bæði í vinnu og skóla, umvafin skemmtilegu fólki.

Og svo er ég bara flutt til útlanda...

Er í góðu yfirlæti í Köben síðan í gærkvöldi, fékk góðar móttökur á flugvellinum þar sem biðu mín 3 manneskjur frá skólanum vegna einhvers misskilnings, stelpa með skilti sem á stóð Karlsdóttir, Sif og strákur með skilti sem á stóð á Sif, og svo einn í viðbót sem ekki var með skilti. Það kom nú fát á þau þegar þau áttuðu sig á að ég væri allar þessar manneskjur og svo var ég keyrð heim til Sigga þar sem ég gerði innrás á íslenskan hljómsveitarfund.

Núna er sól úti og dagurinn og borgin bíða eftir mér og skóli eftir 2 tíma, gaman gaman....

Heyri í ykkur