28.12.2004

Dagur milli sveita

Alveg ótrúlegt, ég er ekki alveg búin að ná áttum en ég hef sofið mína síðustu nótt á Holtsgötunni. Púfffffff, er núna um það bil að hefja mína fyrstu nótt sem óformleg Keflavíkurmær enn og aftur, verður ekki formlegt samkvæmt manntali fyrr en um áramót.
Merkilegt hvað lífið fer oft óvæntar og snöggar dýfur, það er þessi rússíbana tilfinning sem ég hef, mér finnst þetta alveg mjög gaman en samt með stein í maganum því ég veit ekki alveg hvað gerist. Mér finnst ég að einhverju leiti vera að yfirgefa einhvern öruggan stað og halda út í óvissuna, ég veit samt alveg hvaða föstu punktar verða á leiðinni.
Amma er algjör engill sem er og á eftir að gera allt sem hún getur til að láta mér líða vel hér hjá henni, og ég er henni mjög þakklát. Það er samt ekki það sama og að eiga eigin holu og ráða þar öllu.
Ég skildi íbúðina eftir eins og eftir sprengjuáras áðan þegar flutningabíllinn tók dótið, þ.e. það dót sem var tilbúið að fara. Þar sem ég bý/bjó í götu þar sem er bílastæðaskortur notaði ég tækifærið í dag þegar flestir voru að vinna og lagði bílnum mínum þannig að hann tók yfir ein 3 stæði og setti svo smá miða FRÁTEKIÐ fyrir framan til að flutningabíllinn kæmist að. Þetta er mikil herkænska, ég sá þetta gert í götunni um daginn og líklega eina leiðin til að flytja með góðu móti eftir 5 á daginn við þessa götu. Mér leið samt frekar undarlega að vera að þessu basli, en varð svo montin af því að hafa náð stæði fyrir flutningabílinn fyrir framan húsið að ég þorði ekki að hreyfa bílinn minn til að fara og ná i fleirri kassa til að geta klárað að pakka.
Núna ætla ég hinsvegar að róa hugann fyrir framan e-ð örugglega frekar ógáfulegt í sjónvarpinu.

27.12.2004

vinnogflensujól...

Þriðji dagur jóla runninn upp og ég held að megi fullyrða að þetta hafa verið ójólalegustu jól sem ég man eftir.
Ég var að vinna til tvö á aðfangadag, var e-ð tuskuleg en samt fínn dagur í vinnunni. Brunaði til Keflavíkur, kíkti við að einum stað áður en ég fór heim til ömmu (sem var í London) til að fara í jólabað og komast í einlægt jólaskap. Mér tókst nokkuð vel upp, fór í gott bað, hlustaði á Sálmana hennar Ellen, fór í falleg föt og puntaði mig. Var komin heim til mömmu um 1/2 sex og bara nokkuð mikil jól í mér. Fljótlega eftir að við settumst niður til að borða kom yfir mig alveg óstjórnleg þreyta og sama hversu ég reyndi að hressa mig við gékk það ekki. Pakkarnir voru skemmtilegir, ég fékk mikið góðra gjafa. Fljótlega eftir að við lukum við eftirréttinn var þreytan orðin svo mikil að ég sá mér ekki annað fært en að yfirgefa veisluna. Ég ætlaði rétt að leggjast út af áður en ég hingdi og óskaði fólki gleðilegra jóla en í millitíðinni steinsofnaði ég og klukkan ekki orðin ellefu.
Ég svaf eins og steinn í ellefu tíma, fór á fætur og brunaði til Reykjavíkur í vinnuna, í betri fötum en ég hef nokkru sinni farið áður í vinnu í, og var að hugsa hvort kæmi á undan, jólaskapið eða hegðunin sem síðan leiðir af jólaskapi. Fór ég í pils og fínt í vinnuna af því að það voru jól, eða olli jólaskapið því að ég valdi þessi föt fram yfir gallbuxur og bol sem ég fer venjuleg í?
Vinnudagurinn góður en ég var þreytt, slöpp og hnerrandi mjög, en samt í stuði. Þegar ég kom heim um sex leitið var hinsvegar eins og allt loft færi úr mér í einni svipan og ég var alveg búin á því. Í stuttu máli má segja að síðan sex á jóladag og þar til núna, hef ég varla vitað af mér. Það helltist yfir mig þetta líka rosalega höfuðkvef og hiti með 30 hnerrum á klukkustund. Núna hefur hitinn lækkað, ég er farin að anda aðeins í gegnum nefið og komin niðrí 10 hnerra á klukkustund. Allt á réttri leið.
Ég var að hugsa, eins ójólalegt og mér fannst tilhugsunin um að vera að vinna öll jólin (ég átti að vera að vinna bæði í gær og í dag líka) þá er miklu jólalegra að vera að vinna en að liggja heima með flensu. Það er aldrei góður tími til að vera með flensu. Það er leiðinlegt að vera með flensu þegar ég á að vera að vinna, samt eiginlega leiðinlegra þegar ég á ekki að vera að vinna. Það er vont að vera með flensu um jól, áramót, páska og á öðrum hátíðum og veisludögum. Leiðinlegt að vera með flensu á sumrin, óheppilegt í upphafi skólaannar, ennþá óheppilegra þegar þarf að skila verkefnum og/eða í prófum. Þegar allt er á botninn hvolft er enginn tími góður til að vera með flensu.
Ég er búin að sannreyna að flensusprauta er ekki trygging fyrir flensulausum vetri. Í eina skiptið sem ég hef fengið slíka sprautu var það upphafið af slappasta vetri sem ég man eftir. Það var ekki svo mikið um alvarlegar kvefpestir heldur geysuðu þann veturinn fjöldinn allur af magapestum sem virtust allar finna mig. Ég hef líka reynt að hlýrra loftslag miðjarðarhafsins er flensulaust, heldur þvert á móti, þar virðast eiga heima mér óþekktir stofnar flensu sem að líkaminn átti erfiðara með að hrista af sér ef eitthvað er. Meira að segja hrakti sjónvarpsþáttur sem ég horfði á um daginn um vítamín þá einlægu trú mína að c-vítamín gæti verið vörn við flensum.

Niðurstaða: flensa er óflýjanlegur hluti af árinu sem hittir aldrei vel á.

Kostir: Hægt að horfa á hvaða vitleysu sem er í sjónvarpinu því það situr hvort eð er ekkert eftir. Mesti kosturinn er sá hversu vel mér líður þegar fer að rofa til í höfðinu að finna hversu skýr hugsunin getur verið... er ekki alveg komin þangað núna, en hlakka óstjórnlega til.

23.12.2004

Jólin komin heim

Jahérna, klukkan rétt um sex á Þorláksmessu og jólin eru barasta tilbúin hjá mér. Ég held að ég hafi aldrei verið jafn skipulögð og framsýn fyrir jól og nú. Það eru ekki nema tveir dagar síðan mér fannst ég ætti eftir að sigra heiminn áður en jólin gætu hafist og sigurinn er unninn.
Í fyrrinótt tókst mér nokkuð sem mér hafði fundist óyfirstíganlegt síðan snemma í haust - að klára ritgerð. Ég byrjaði að kíkja á hana kvöldinu áður en fannst ég ekki ná neinu sambandi við hana, lagði hana því frá mér. Seinni partinn fór ég svo að vinna heimildaskránna til að reyna að koma mér í gang en það var ekki fyrr en mörgum klukkustundum síðar, eftir að hafa vaskað upp, vökvað blómin, brotið saman þvott, horft á Amy dómara klökka yfir örlögum glæpamanns og spilað kapal þar til mér fannst ég ósigrandi að ég settist niður með ritgerðinni... uppú miðnætti.
Kl 5:30 um morguninn var ég komin með ritgerð sem ég var sátt við. Þá var bara að koma ró á mjög virkt heilabú mitt og hófst þá annað ferli, busta, hátta, netið, kapall, lesa, horfa á mynd og semja svosem 2-3 aðrar ritgerðir í höfðinu á meðan. Uppúr 8 held ég að svefninn hafi loks læðst að mér og ég formlega komin í skólajólafrí.
Gær bara vinna og rólegheit. Í dag kom ég svo jólum í hús, þrífa, skreyta og klára að pakka gjöfum. Ég skil ekkert með þessa pakkaborða, það er alltaf einhver límmiði á þeim sem segir manni hversu margir metrar eru á rúllunni, en ég er alveg viss um að það er ekki dregin frá sá metrafjöldi sem fer til spillis út af þessum límmiða. Ætti að standa 5m - 1 1/2 m í límmiða. Ég er alltaf að misreikna mig á þessu, finnst ég eiga úrval borða og kemst svo að því að þetta eru allt afgangar sem komnir eru að límmiðanum.
Er að hugsa um að sækja það sem uppá vantar af jólastemningunni niðrí bæ á eftir, ef ég þori aftur út í kuldann, fá mér kannski heit kakó og njóta þess að eiga frí.
Til ykkar allra, ef ég á ekki eftir að koma fyrir jól...

Gleðileg jól... friður og ást


21.12.2004

Síðasti söludagur

Ég ákvað um daginn að reyna að borða það sem til er þar sem ég er að flytja.
Í fyrradag borðaði ég hrisgrjón með smjöri og salti (mun betra en það hljómar). Í gær borðaði ég afganginn af hrisgrjónunum með spældu eggi, eggin voru reyndar á síðasta söludag í enda nóv. en ég lét mig hafa það. Ég verð að segja að hrísgrjón með smjöri eru betri en með spældu.
Í kvöld hugðist ég svo ráðast á Ora fiskbúðinginn sem ég held að ég hafi futt með mér frá Laugarvatni. Ég verð alltaf jafn hissa þegar ég rek augun í þessar oradósir og velti fyrir mér hvað ég var að hugsa þegar ég keypti þær, því mig langar aldrei nokkurntíman í þær. Núna hinsvegar ákvað ég að kíla á það og opnaði dósina, mér fannst búðingurinn frekar undarlega bleikur á litinn en þegar ég kíkti á síðasta söludag sá ég ástæðuna... best fyrir... fyrir ári síðan. Ég var byrjuð að sjóða vatn&mjölk fyrir kartöflumúsina sem ég ætlaði að hafa með, þannig að ég ákvað að skoða hina dósina sem mig minnti að ég ætti... sama sagan best fyrir löngu síðan. Þá gerðist það undarlega, ég sá þriðju dósina. Hvernig er hægt að eiga þrjár dósir af einhverju sem mig langar aldrei í? heppnin með mér, siðasti söludagur einhverntíman 2007.
Ég skelli búðingnum á pönnuna og ræðst á pakkamúsina þar sem vatnið var soðið. Þegar ég opna pokann finnst mér innihaldið fremur einkennilegt, kíki á minnst holdbar á botninum- einhverntíman snemma árs 2003. Pínu fyndið, hugsa að þetta sé nú allt í lagi þar sem ég vissi að ég ætti einhverja kassa af kúskús í skápnum, best before síðla 2003, 3 kassar - í ruslið með það. Það fer minnkandi í skápnum, niðusoðinn ananas, ekki góður með fiskbúðing, niðursoðnir tómatar ekki heldur.
Ég sé danskar bakaðar baunir, kíki á botninn, skil ekki alveg hvort þeim var sprautað í dósina i janúar 2004 eða hvort það var síðasti söludagur. Fiskbúðingurinn var farinn að kólna á pönnunni, ég tek smá smakk af baununum, ekkert svo vondar, þannig að ég hita þær snökkt og skelli þeim á diskinn með fiskbúðingnum. Þegar ég smakka á þeim heitum fer ég dálítið að óttast um heilsu mína, ákveð að borða bara búðinginn.
En ég er ekki orðin södd, kíki aftur í skápinn, minnti að ég ætti núðlusúpu - mér til mikillar ánægju á ég ekki bara einn pakka heldur tvo, get valið. Kíki samt á síðasta söludag til öryggis... annar pakkinn útrunnin fyrir ári síðan, á hinum er ekki dagsetning, ákveð að skella honum í pottinn... fínar núðlur, með sveppabragði.
Það sem ég skil ekki er hversvegna í ósköpunum það kemur af og til yfir mig þessi þörf að kaupa einhvern óbjóð í pökkum og niðursuðudósum.Það er næsta víst að ég legg ekki í að borða þesshátar nema í algjöru hallæri eða af hreinni skyldurækni eins og komið hefur yfir mig núna. Þegar að þessum aðstæðum kemur er síðasti söludagur löngu runninn upp og allt jukkið fer í tunnuna, er ekki bara eins gott að gera ekki ráð fyrir þessum aðstæðum og halda sig við seríósið þegar allt annað bregst?!?!?

19.12.2004

Taka tvö

Ég bloggaði einu sinni, ég bloggaði einmitt einu sinni, svo skildi ég ekki nógu vel í þessu og fannst voða flókið að standa í þessu.
Núna ætla ég að reyna aftur og líklega skapaðist áhuginn vegna þess að ég var að selja íbúðina mína og ætla ekki að kaupa mér aðra eða leigja í bráð. Það verður örugglega skrýtið að eiga eiginlega hvergi heima, með dótið um kvippinn og kvappinn. Ég á samt góða að og verð með annann fótinn hjá henni ömmu minni.
Ég ætla samt að byrja á því að fara til útlanda í 6 vikur núna eftir áramótin, ætla að heimsækja fólk í Berlín, Barcelona og London og kem svo heim til að fara á vinnuhelgi uppá Bifröst seinnipartinn í febrúar. Fram á vorið verð ég svo Keflavíkurmær enn og aftur, ég er í hvert sinn sem ég ferð þaðan er ég viss um að ég eigi aldrei eftir að búa þar aftur en... ég sagði þetta sama um að vinna í fiski og hef nú staðið við það lengur en að eiga heima í Keflavík... það væri ógeðslega fyndið ef ég ætti bæði heima í Keflavík og væri að vinna í fiski fram á vorið.
þetta er allavega byrjun!!!!