30.3.2007

Í dag

Í dag var ég bara með eitt á planinu; að eignast barn.
Ég sé ekki fram á að ná því fyrir miðnætti.
Æ, ég fresta því bara til morguns!

bumban

Í kvöld prófaði ég að láta kókópuffsskál sitja á bumbunni. Hún small eins og flís í rass.
Mér fannst það gaman

29.3.2007

langar

Mig hefur langað í brauð með hnetusmjöri og sultu í marga marga daga en man aldrei eftir því að eignast hnetusmjör. Í morgun vaknaði ég með þá skýru hugsun að nú ætti ég hnetusmjör, ég sá það meira að segja fyrir mér í ískápnum og það eina sem fékk mig framúr var tilhugsunin um að fá loksins loksins brauð með hnetusmjöri og sultu. Hvílík vonbrigði þegar ég var búin að leita af mér allan grun og fékk bara brauð með osti og gúrku.
Í dag ætla ég að eignast hnetusmjör.

28.3.2007

Vorið er komið, eða var það lóan, æ...

Fréttin sem tröllreið þjóðinni í gær var að lóan væri komin. Héldu fjölmiðlamenn upp til fóta ekki vatni fyrir þessum miklu fréttum og kepptust fréttastofurnar sem mest þær máttu við að sannfæra landsmenn að þar með væri vorið komið, ekki lýgur lóan!!!
Við erum svo fyndin og forpúkuð oft, við íslendingar. Sama dag og við vöknum upp við alhvíta jörð og skíðasvæði reykvíkinga eru opnuð eftir hlé, þá er hafin áróðursbarátta við að sannfæra þjóðina um að "vorið sé víst komið", vegna þess að nokkrir litlir fuglar mæta á svæðið og spáð er 2 stiga hita daginn eftir.
Ég er ekki sannfærð en mér finnst þetta skemmtilegt.

27.3.2007

Það var stutt bil !!! Enn ólétt

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja gerir greinilega kraftaverk. Eftir 6 tíma legur voru 2 af 3 einkennum eitrunar horfin og ég útskrifuð eins og nýsleginn túskyldingur.
Þá er ég bara komin heim aftur og vanda mig sem aldrei fyrr að slappa af og passa þrýstinginn.

Enn ólétt

Þá er tjelling bara komin með fyrsta stig meðgöngueitrunar.
Er að pakka niðrí tösku og á leið á sjúkrahúsið.
Þau vilja endilega hafa mig þar í bili.
Kannski að ég komi næst heim með barn, hver veit.
Spennan er gríðarleg.

25.3.2007

Enn ólétt

Ég er að hugsa um að hafa þetta sem titil á öllum mínum færslum þar til hann hættir að vera sannur. Ég er reyndar ósköp lítið óþolimóð ennþá. Síðasta vika hefur farið í að vera með flensu og mest öll orka mín í það að ná andanum á milli hóstakasta og snítinga. Það er lán í óláni við a.m.k 8 daga flensu á 39. viku meðgöngu að mig langar óskaplega lítið að eignast barn á milli hóstakasta.
Í gær fór ég á Selfoss að kveðja góða konu. Þórunn systir hans Heiðars fósturpabba dó úr krabbameini fyrir rúmri viku og hafa nú báðir feður mínir misst systir úr þessum hörmulega sjúkdóm á innan við 2. mánuðum.

Ég verð alveg matvana þegar ég reyni að skilja hversvegna það hefur ekki fundist lækning við svo mörgu og af hverju meiri tíma og fé er ekki varið í rannsóknir og þróanir á lyfjum á sama tíma og óhemju fé er enn varið t.d. í hergagnaframleiðslu og í betri geimför.
En það er náttúrulega svo margt sem við vitum ekki né skiljum. Ég meina það er ekki einu sinni vitað fyrir víst hvað það er sem kemur fæðingu af stað, merkilegt nokk. Það er allavega á hreinu að við komum í þennan heim og kveðjum hann á einn veg eða annan og hver við erum og það sem við gerum þess á milli er það sem okkar er minnst fyrir.

Nú ætla ég að fara að reyna að kaupa það sem mig vantar í Sushi til að seðja ósegjanlegri þörf og fara svo í slökun í von um að barnið líti á það sem boðskort út í hinn ytri heim.

19.3.2007

merki

Ég er aðeins farin að fara úr hárum eftir 8 mánaða hlé.
Er það ekki klárlega merki um að fæðing sé rétt handan við hornið?

18.3.2007

Hungur

Ég hef ekki hugmyndaflug lengur í þetta endalausa hungur sem herjar á mig.
Ég hlakka ekki lengur bara til að eignast barn heldur hlakka ég til að hætta að vera ólétt, mér finnst það ekki lengur gaman. Náttúran sér alveg um að konan sé tilbúin að annast barnið með því að gera meðgönguna of langa. Barnið var tæknilega séð tilbúið að fæðast í heiminn fyrir viku síðan samt sem áður er líklegast að það láti ekki sjá sig fyrr en eftir rúmar 2 vikur og svo verður það sótt ef það verður ekki komið eftir 3.
Annars get ég ekki kvartað mikið, ég er hress og hraust og get ennþá gripið um tærnar á mér en ég hlakka mikið mikið til að sofa á bakinu og maganum og hlaupa um og hoppa og skoppa.
Það er svo margt sem mig hungrar í.

12.3.2007

Prumpulykt

Það hefur aldrei vafist fyrir mér að prumpa, það er nokkuð sem hefur reynst mér mjög auðvelt. Hingað til hef ég getað losað mig við loftið á nokkuð hljóðan og lyktarlausan hátt. Undanfarið hefur loftlosun mín færst óþarflega mikið aukana og bæði hljóð og lykt einnig aukist jafnt og þétt. Nú er svo komið að ég er ekki í húsum hæf. Ég veigra mér næstum við að fara út í búð og þegar verst lætur er lyktin svo slæm að ég er orðin dónaleg gagnvart sjálfri mér. Ef ég á bágt með að vera í minni eigin prumpulykt hvernig get ég þá boðið öðru fólki upp á hana?
Ég vona að þetta sé tímabundið en ekki viðvarandi ástand því annars verð ég bara ein það sem eftir er með rassinn út um gluggann.

3.3.2007

35 ára

Þá er ég barasta orðin 35 ára. Mér finnst það gaman. Var að fatta að það er eiginlega stórafmæli, svo á ég aftur stórafmæli á næsta ári, það verður líka gaman.
Í gær varð ég í fyrsta skiptið vör við lækkun matvælaverðs, ég ákvað að líta á það sem afmælisgjöf. Á næsta stórafmæli langar mig í alvöru jafnaðarmannaflokk að gjöf. Flokk sem þorir raunverulega að stíga skref til að jafna kjör almennings. Ég ætla að bíða og vona.

1.3.2007

Að öðru

Hversu mikill fáviti þarf maður að vera til að gefa fátæku fólki útrunnin mat?
Er hægt að leggjast mikið lægra í lágkúr, vesæld og nísku?