25.2.2008

pakk og bræðsla

Ég er farin að halda að það vaxi dót inní skápunum hjá mér. Ég pakka og pakka en samt er alltaf eitthvað eftir í skápunum. Úffídídúff! Annars bara svoldið gaman að vera að flytja, er búin að festa kaup á nokkrum nýjum og notuðum hlutum í nýja húsið og get bara ekki beðið eftir að koma mér fyrir. Þetta er bara allt að skella á. Merkilegt hvað það er einhvernvegin meira að flytja svona þegar maður er komin með litla manneskju með sér á ferðalagið.

Annars gengur lífsstílsbreytingin alveg glymrandi vel. Í síðustu viku bræddi ég 3 og 6/10 þyngdar smjörs af mannafitu. Skelfilegt þegar þetta er sett svona upp en það fóru sem sé 1800 gr til viðbótar og það eru svo mikið sem 8kg í allt á 5 vikum. Þetta er með ólíkindum alveg hreint. Ég er vongóð um að þetta eigi eftir að ganga ljómandi áfram þótt að það verði spennandi verkefni að fá skemmtilegt og ferskt grænmeti fyrir vestan.

Núna þarf ég hinsvegar að koma mér í háttinn svo ég hafi orku til að klára að flokka, pakka og stafla á morgun.

19.2.2008

smörstykki til viðbótar

Mér finnst ógeðslega gaman þegar ég sé að einhver frá Japan eða Venesúela hafa skoðað þessa síðu. Vissuð þið það annars að Venesúela er síðast í stafrófröðinni af löndum latnesku Ameríku (og segið svo að það sé ekki lærdómsríkt að spila trivial).
Undanfarnir dagar og reyndar vikur hafa einkennst af pestum af allskonar tagi hér á þessu heimili. Litla krílið hefur mest fengið að finna fyrir því, ég hef sloppið furðu vel fram til þessa. Af þessum sökum tók ég dönsku vini mína ekki nægjanlega mikið til fyrirmyndar í síðustu viku þar sem ég bæti við mig mat til að geta búið til næga mjólk í lítinn maga sem þoldi illa annað en mömmumjólkina. Ég var alveg búin að sætta mig við að standa bara í stað í viktuninni í gær en viti menn enn fuku 500 gr, eitt smjör stykki þar :) þá eru rúm 6 kg farin. Ég held svei mér að ég geti verið búin að koma mér í pre-óléttu þyngd mína fyrir páska. Það væri nú algjör draumur, vúhú.
Baráttukveðjur til ykkar hinna ;)

12.2.2008

og þau fjúka

jú, hér gengur allt eins og það á að ganga.
Mér gengur misvel að tileinka mér nýju matarsiðina, er aðeins of kræf í að bítta og skipta út og inn því sem hentar mér en passa þó að ég sé að fá nokkurnvegin þá orku sem ég þarf í heildina, þ.e. hvorki of lítið né of mikið. Og viti menn, ég er búin að missa 800 gr til viðbótar sem gera 5.7kg í heildina og þar með er fyrsta markmiðinu náð, þ.e. 5kg og gott betur. Nú læt ég mér hlakka til að komast í -10kg.
Lítið annað að frétta, hef að mestu haldið mig heima við, Kristín er búin að vera meira og minna veik í 10 daga, allavega nóg til að ég hef ekki viljað vera á ferðinni með hana í þessum óveðrum.
Er hætt...

4.2.2008

allt að gerast

Og gleðilegt nýtt ár.... aldrei of seint fyrir góðar kveðjur.

Það sem af er þessu ári hefur verið með eindæmum viðburðaríkt og skemmtilegt.

Byrjaði árið á því að fara í 2 vikna fimmtugsafmæli til Kanarí með röskum hópi fólks. Ferðin var í alla staði hin besta og ég kom heim með töluverða sól í hjarta og hita í kroppnum.

Síðan er ég búin að ráða mig í vinnu vestur á Tálknafjörð þar sem ég ætla að vera alltmúlíg kona á hreppsskrifstofunni. Verkefnin þar hljóma mjög spennandi og ég hlakka til að bretta upp ermarnar og fara að vinna launað starf að nýju.

Jú, og svo hef ég hafið heilsuátak með miklum látum. Hef tekið upp nýja matarsiði með hjálp hinna dönsku ráðgjafa og það hefur verið voðalega auðvelt og 4.9 kíló fokin á 2 vikum.
Við erum allavega einar 4 úr Kanaríeyjaferðinni sem að höfum ákveðið að venda okkar kvæði í kross og mér reinknast til að fokin sé vel rúmlega ein Kristín Björg af óþarfa kílóum á 2 vikum hjá okkur. Mér finnst það nokkuð skemmtilegt. Ég er nú eiginlega búin að lofa að láta vita hvernig gegnur með nýju matarsiðina þannig að kannski verður þetta að æsi spennandi framahaldssögum um kílóin sem fjúka :)

þar til næst...