29.8.2007

Rörið sem sprakk

Einn sólríkan dag fyrir skemmstu sprakk vatnslögn í götunni minni. Það dregur sjaldan til tíðinda í götunni minni og fáir sjást hér fótgangandi nema ég og hin konan sem er með ungabarn. Við brosum gjarnan til hvor annarar og uppá síðkastið erum við farnar að kasta kveðjum á milli og jafnvel spyrja til veðurs ef við erum ekki komnar nema hálfa leið út úr húsi.
Þennan sólríka dag dróg hinsvegar til tíðinda, það sprakk ekki einungis vatnslögn þannig að malbikið lyftist frá jörðu og vatnið rann í stríðum straumum eftir götunni heldur fylltist gatan líka af fólki. Fyrst voru það bara ég og maðurinn við hliðiná, svo kom löggan og svo hver nágranninn á eftir öðrum. Gatan hreinlega iðaði af lífi, allir voru spenntir og ærslagangurinn mikill yfir sprungnu vatnslögninni. Ég lærði nokkuð í óspurðum fréttum um hagi nágranna minna og fannst ég nokkuð heppin með að búa í svona mannmiklu hverfi.
Sama kvöld kom grafa og krafsaði eitthvað í holu og síðan hefur rörið sjálfsagt verið lagað, holan jöfnuð og í gær var klárað að malbika yfir allt saman aftur.
Ekkert hef ég þó séð af nágrönnum mínum frá því sólríka daginn sem rörið sprakk.

28.8.2007

Þoka

Það er frekar fyndið að lifa lífi þar sem dagurinn snýst um bleyjur og falleg bros. Það gerist alveg hellingur af skemmtilegu öðru en það virðist gleymast jafn óðum þegar kúkasprengjum er varpað yfir rúmið mitt árla morguns eða þegar ný tannsla lítur dagsins ljós.
Einhvern daginn léttir þokunni og ég fer að muna.