30.3.2006

Meðal fólks

suss suss, ég var búin að lofa mér að vera duglega að skrifa og svo er bara tæknilega kominn þar næsti dagur og ég núna fyrst að átta mig.

Var í strætó í dag þegar konan sem sat fyrir aftan mig í strætónum hóf að smjatta af mikilli innlifun. Það er oft talað um að fólk sem talar í farsíma á almannafæri (og þá sérstaklega það fólk sem tala um einkamál sín hátt og snjallt) sé að draga fólk í kringum sig nauðugt inní þeirra einkalíf. Það er nefnilega svo merkilegt að þegar maður er sestur í sæti í strætó, eða hvaða almannasamgöngum sem er, þá er maður einhvernvegin kominn inná einkasvæði, svæði sem maður hefur eignað sér á meðan á ferðalaginu stendur. Konan í strætó smjattaði af öllum sálarkröftum greinilega án þess að gera sér nokkra grein fyrir því að allir viðstaddir voru orðnir þátttakendur í millibitamáltið hennar.

Ég fór að velta fyrir mér hversu oft ég hef dregið fólk óaðvitandi inní mitt einkalíf á almannafæri. Ég læri t.d. oft í strætó, sérstaklega fyrir dönskuskólann þar sem ég þar að læra setningar utanbókar. Stundum er ég með upptöku og stundum les ég þær bara yfir í huganum (vona ég). Ég dett alveg inní minn eigin heim, í fáránleika setninganna og hvað veit ég nema að í hita augnabliksins eigi ég það til að stynja upphátt eitthvað eins og: "Den jyske vestkyst er barsk, men imponerende" eða "Jeg arbejder som sygeplejerske på fødeafdelingen" (birt með góðfúslegu leyfi KISS sprogcenter, hahaha).

Það er gaman að búa meðal fólks.

29.3.2006

"Sveitaferð"

Jóhann litli hlandpungur er farinn í sveitina. Ég á nú eftir að sakna hans helling.

Annað er helst að frétta:

ég er í endalausum prófum þessa dagana í dönskuskólanum mínum, ekki mjög flókin en þarf samt að læra pínu smá.

Vorið heldur áfram að vera á leiðinni.

Byrjuð að gera jóga aftur eftir smá hlé, það er frábært.

Stend mig vel í að borða nærri 500 gr. af grænmeti og ávöxtum á dag.

-Farin að gera jóga og svo að læra meira.

28.3.2006

Gaman

Í gær var hlýtt, líklega hlýjasti dagur ársins, súld og suddi en hlýtt.

Ég var úti að ganga og fannst allt fólk í kringum mig vera óvenju fallegt og áhugavert.

Held að þetta hafi verið í fyrsta skiptið síðan í október sem ég sé almennilega framan í fólk úti á götu. Það hefur bara rétt sést í nasavængina stingast út í gegnum húfur og trefla síðustu 4-5 mánuði.

Vááá, hvað þetta er skemmtilegt.

27.3.2006

Að duga eða drepast

Humm, ekki hef ég nú sést mikið hér að undanfarið, e-ð verið löt við að færa ævintýri mín, sigra og sorgir hér inn.

Það er svo æðisleg þoka úti núna að mig langar helst að tala mikið um veðrið.
Ég er hef líka brugðið mér úr borg svoldið að undanförnu, fór í menningarferð til Malmö um daginn og líka á Louisiana safnið að skoða list og strönd, þannig að mig langar líka heilmikið að tala um ferðalög.

Það hefur mikið verið að gerast í skólunum mínum undanfarið og ég gæti verið búin að tala helling um það líka.

Mikið er ég nú svo búin að njóta samvista við skemmtilegt og yndislegt fólk að undaförnu og alveg látið vera að ræða það.

Ég er LOKSINS orðin samdauna kattahlandsfílunni enda hefur höfðinginn nú náð að míga í öll herbergi íbúðarinnar og mig langar ekkert að ræða það frekar.

Framundan eru svo enn fleiri ævintýri og skemmtilegheit, nú er að duga eða drepast í þessum bloggheimi.

17.3.2006

Lambakjöt og sól

Fattaði það í dag þegar ég var að borða kjúklingasúpu sem ég bjó til, að ég hef ekki rekið augun í lambakjöt í matvöruverslunum hér á landi. Fór að velta fyrir mér hvort rollur þurfi fjöll til að þrífast!?!?

Kíkti á veðurspánna áðan og þar er mér lofað fullri sól svo langt sem spáin nær að frátöldum morgundeginum þar sem eitt ský er e-ð að þvælast fyrir sólinni. Það besta við þetta er að það sést líka pínu rautt á hitastigslínunni yfir hádaginn.

Svei mér þá ef ég er ekki farin að trúa af alvöru á vorið.

16.3.2006

vorið kemur, já já.

Fór í búðina í morgun og ég held hreinlega að allt sem ég ætlaði að kaupa hafi verið á tilboði.

Hjólaði úti húfu- og vettlingalaus án þess að krókna úr kulda.

Fann loksins nokkuð sem ég hafði leitað að í nokkra daga.

Kíkti á heimabankan og sá að ég hafði unnið 15þ kall í happdrætti háskólans.

Klukkan er rúmlega 6 og það er enn flenni bjart.

Já já

8.3.2006

bissnesspróf

Í gær fór ég í upptökupróf í faginu sem ég féll í fyrir jól. Ég var nokkuð ánægð með mig, var frekar vel undirbúin og alveg viss um að ég væri nú búin að ná tökum á þessu prófformi. Prófið var bara búið að vara í 2-3 mínútur þegar ég stóð fyrst á gati og ég stóð mig ekkert sérlega vel næstu 15 mínúturnar. Niðurstaðan var að ég rétt skreið og kennarinn og prófdómarinn gáfu mér góð ráð um hvernig ég ætti að undirbúa mig í framtíðinni fyrir munnleg próf. Ég var alveg miður mín og tók bara allri gagnrýninni eins og þau væru einu manneskjurnar sem hefðu rétt fyrir sér í heiminum og gleymdi því sem snöggvast að ég náði 2 svona prófum í desember (þótt það hafi ekki verið bestu einkunnir sem ég hef fengið).

Mér fannst þetta alveg ferlega leiðinlegt en mest skildi ég bara ekkert í því hvernig mér gæti skjátlast svona varðandi undirbúninginn. Ég er nú orðin gamalreynd í skólamálum og nokkuð nösk á að giska á einkunir mínar fyrir fram og er þá yfirleitt svartsýnni en hitt.

Ég velti þessu fyrir mér fram og til baka í gærkvöldi og þegar ég var lögst upp í rúm sá ég ljósið:

Ég hef hingað til mest verið að læra hugvísindi þar sem "leiðin" er markmið í sjálfu sér, niðurstaðan fær mikilvægi sitt út frá þeim tengingum sem maður býr til á leiðinni að henni.

Í prófinu í gær reyndi ég að segja frá því dásamlega ferðalagi sem ég hafði átt um námsefnið en kennarinn stoppaði mig alltaf af og vildi fá að vita hvernig þessi eða hinn greinarhöfundurinn hefði leyst vandamálið sem ég hafði lagt fyrir. Mjög fínar spurningar og jafnvel áhugaverðar. Vandamálið var að ég hafði ekki eitt svar fyrir hvern höfund heldur hafði ég eitt svara byggt á mörgum höfundum. Ég var á skemmtilegu ferðalagi á meðan kennarinn var í spretthlaupi á milli höfunda. Þar sem ég hafði varið nokkrum dögum í þetta ferðalag átti ég mjög erfitt með að taka sprettina með kennaranum undir þeirri tímapressu sem ég var.

Mér létti mjög við að finna út nákvæmlega hvar ég klikkaði í þessu prófi því núna veit ég hvernig ég á að undirbúa mig fyrir síðasta bissness prófið mitt sem er í maí. Mér finnst ég líka allt í einu hafa skilið hvernig fólki er kennt að hugsa í bissness: markmiðið er niðurstaðan, leiðin skiptir minna máli.

Um leið og mér líður eins og ég sé aðeins meira bisness þenkjandi í dag en í gær er ég ótrúlega sátt við það nám sem ég hef að baki. Það er einfaldlega miklu meira spennandi og gefandi.

2.3.2006

Ammælisdagar

Þá er síðasta árið sem ég er nær því að vera 30 en 40 hafið.
Af því tilefni hef ég fagnað nokkuð að undanfarið.
Á laugardaginn var ég prinsessa eina kvöldstund umvafin góðu fólki. Mér var boðið í æðislegan mat, ég kom með bestu súkkulaðiköku sem ég hef á ævinni bakað og svo var setið og spjallað fram á nótt. Ég vil meina að norðurljósin hafi gert undantekningu og skinið hér mér til heiðurs (ekki alveg allir sammála mér í því).
Á sjálfan ammælisdaginn fór ég út að borða og í bíó með leigusalanum, annað frábært kvöld.
Vegna mikilla vangaveltna og vandræðagangs hef ég tekið ákvörðun: Þegar 29. febrúar heiðrar mig ekki, þá er opinber ammælisdagur minn 28. febrúar! Fólk var farið að vandræðast með þetta hér í byrjun feb. og ég stóð mig að því að vera komin í vafa líka en nú er komin niðurstaða.