26.7.2005

Á góðri stund

Fór í Grundarfjörð um helgina á "góða stund" fjölskylduhátíð mikla. Fullt hús af fólki hjá Örnu systur.

Á föstudagskvöldinu var varðeldur sem var frekar fínn þrátt fyrir glampandi sólskyn. Seinna um kvöldið lenti ég í partýi með nokkrum pólverjum sem eru með það alveg á hreinu hvernig á að halda partý og drekka - ekki tala, ekki tala, bara drekka... uppúr miðnætti var síðan borin fram terta. Ég fór frekar snemma í háttinn.

Laugardagurinn var aðal dagurinn. Fimleikasýning barna um morguninn, skemmtun á bryggjunni uppúr hádegi. Þar voru börn að syngja, Pétur pókus og hljómsveit sem heitir Hundur í óskylum (held ég). Það er dúett, svoldið skemmtilegir strákar búnir að útsetja hefðbundin íslensk sönglög t.d. fyrir lúðrasveit og redda því tveir. Þarna á bryggjunni var líka ansi skemmtilegt tívolítæki, fallturn sem kítlaði alveg hláturstaugarnar. Hálandaleikar, barnaafmæli, pikknikk með "blá hverfinu" (bænum var skipt niður í 4 hverfi gulur, rauður, grænn og blár... ég var í bláa...), meiri heimatilbúin skemmtun á bryggjunni og svo náttúrulega bryggjuball. Ég fór heldur fyrr heim á laugardagskvöldinu.

Sunnudagurinn var frekar rólegur enda líklega flestir bæjarbúar búnir með orkuna. Ég fór samt niður á bryggju að skoða það sem var í boði. Sá atriði úr Ávaxtakörfunni og verð að segja að mér fannst bananinn frekar pervertískur.
Seinna um daginn kynnti Guðrún, 8 ára gömul frænka mín, mig fyrir Sims2 tölvuleiknum og ég kolféll... núna langar mig bara í flotta tölvu sem ræður við þennan leik og svo leikinn með öllum fylgileikjum. Ég var nú samt ekki að standa mig voðalega vel því á þessum 3 tímum sem við spiluðum voru tvo unglingsbörn tekin af okkur og ég náði að drepa ólétta húsmóður úr hungri... Hrikalega skemmtilegur leikur sem ég vissi ekki einu sinna að væri til og ég er bara þakklát fyrir að tölvan mín ræður líklega ekki við hann.

Í gær kom ég aftur á Bifröst. Ég var fengin til að elda saltfisk á spænska vísu fyrir 8 manns í gærkvöldi, mjög vel heppnað. Svo sofnaði ég yfir Lost, vaknaði við skælbrosandi íþróttakalla á skjánum og skreið þá inní rúm og svaf í 10 tíma, greinilega þreytt eftir helgina.

Í dag er ég að koma mér í stuð til að klára eitt verkefni svo ég komist sem fyrst í bæinn. Úti er sól og blíða sem gerir útivist mun meira spennandi en að hanga inni yfir dagsetningum og tölum. Ég er reyndar að hugsa um að sameina þetta og fara út í potta með allar tölurnar og athuga hvort það verði ekki vit í þeim þar.

20.7.2005

Persinn, norsarinn og ég

Um daginn þegar ég var á heimleið tók á móti mér hér við húsið undarlega útlitandi kisa... ég var reyndar ekki alveg viss hvort þetta væri kisa í fyrstu hún var svo skrýtin... þetta var hvít persakisa með heimaklippingu, hún var mjög skítug í framan og þegar ég talaði til hennar svaraði hún mér baulandi mjög djúpum rómi.
Áttu heima hér í nágreninu? spurði ég.
Moooooooo, sagði heimaklippta kisa, og nuddaði sér upp við mig.
Ég klappaði heimaklipptu kisu sem sagði; mooooooo.
Ég labbaði að dyrunum og opnaði.
Heimaklippta kisa skaust framhjá mér baulaði; mooooo
Ég fylgdi heimaklipptu kisunni út og hún baulaði; moooo, mooooo.
Þá kom hlaupandi að önnur kisa, sú var norsk svört skógarkisa og hafði ekkert farið í klippingu nýlega. Þetta leyst heimaklipptu persakisunni ekkert á þannig að hún bakaði út í horn og baulaði. Baulið breytist snögglega í hvæs þegar norska svarta skógarkisan fór að strjúka sér við fætur mér og biðja um athygli.
Ég reyndi um stund að sætta þessar ólíku nágranna kisur en eftir nokkra stund ákvað ég að láta þær um þetta sjálfar og fór inn.
Síðan hefur ekki til kattanna spurst.

14.7.2005

Jafntefli... þessa vikun að minnsta kosti

Í gær vann ég loksins sigur yfir Grábrókinni og er mjög ánægð með að hafa loksins rölt þarna upp. Þetta er nú varla fjall og gamlingjastiginn gerir þetta nokkuð einfalda göngu. Við vorum gengum fjögur upp og má segja að helmingurinn af hópnum hafi fundist þetta eitt mesta íþrótta afrek síðustu ára, en okkur hinum helmingnum fannst þetta hálfgerð stríðni að labba þarna upp því ég var rétt að komast í göngustuð þegar sigurinn var unninn. Núna langar mig bara að fara að klifra á fullt af fjöllum, byrja smátt en stefna hærra (stefni á Himmelbjarget í vetur... haha).

Í dag kom blessuð sólin loksins í heimsókn í Borgarfjörðinn og að því tilefni var umræðutími færður út undir beran himin. Það vakti mikinn ursla í umræðunum að ræfilslegum geitungungi fannst við öll sömul mjög spennandi þannig að hann sveimaði á milli okkar varð nærri til þess að 20 fullorðnar manneskjur flúðu. Ótrúlegur töframáttur sem svona lítið kvikindi getur haft á heilan hóp dýra þúsund sinnum stærri!!!! Ég reyndi að vera kúl og láta hann ekki hafa áhrif á mig en náði ekki alveg að leika á sjálfa mig þannig að ég iðaði öll og sveigðist til þegar hann nálgaðist mig. Ég er nýlega búin að ná að halda kúlinu nógu lengi til að henda þessum kvikindum út úr húsum og er ákveðin í því að verða einhverntíman (helst fljótlega) nógu svöl til að láta geitunga ekki skemma fyrir mér að öðru leiti góðar stundir. Verð að vera svöl!!!

Þessa vikuna stend ég því jöfn að stigum við náttúruna vann fjallið en tapaði fyrir kvikindinu. Ætla að halda áfram að telja stigin...

13.7.2005

Í skólanu, í skólanum...

Ég sem efaðist nokkuð um að skóla andinn kæmi yfri mig skjátlaðist svo um munaði og er algjörlega reiðubúin að bæta á visku mína.

Á mánudaginn lærði ég smá í markaðsfræði hjá voða sætum gestafyrirlesaraþ

Í dag lærði ég aðeins um að vera leiðtogi hjá kennara sem kom alla leið frá henni USA til að hella í okkur fróðleik. Ég hef aldrei áður setið námskeið hjá bandaríkjamanni og verð að segja að það er alveg stórkostleg reynsla, hann kemst upp með alskonarhluti sem væru bara kjánalegir ef Íslendingur væri að gera hið sama. Hann lét okkur m.a. dansa öll í tíma til að sýna okkur að það væri ekkert kjánalegt við að vera forstjóri hjá stórfyrirtæki og dansa á kaffistofunni í hléum og sagði okkur kökkur að hann vonaðist til að breyta lífi okkar á þessum fjóru dögum sem hann verður að kenna okkur. Mér finnst þetta æði og vona bara að honum takist ætlunar verk sitt og geri mig að betri manneskju fyrir lok næstu viku.
Það sem gerir þetta námskeið jafnvel enn áhugaverðara er að með honum er nemandi hans sem er ættuð frá Tævan en lærði greinilega ensku í suðurríkjum bandaríkjanna og er með stórkostlegasta hreim sem ég hef heyrt asískan með mjög sterkum suðurríkja áhrifum. Þau eru mjög spennandi tvenna.

Að öðru leiti er pínu eins og að vera í útlöndum hér, allavega finnst mér ég standa nokuð fyrir utan hið daglega líf, fullt af fólki sem ég hef ekki hitt að ráði lengi, matarboð og svo heitupottarnir á kvöldin til að leysa spurningar og svör.

Á morgun er ég ekki í tímum þannig að ég ætla að láta verða loksins af því að príla hér upp á hana Grábrók, sem ég ætlaði að sigra síðasta sumar... ég læti mig það litlu varða þó rektor haldi því fram að það sé gamlingjastigi þarna upp... fjall er fjall, hvernig sem maður kemst upp á það.

10.7.2005

Og þá er brunað í Borgarfjörðinn

Enn og aftur hefur tíminn bitið mig í rassinn, sumarfríinu er opinberlega lokið á morgun og ég skunda uppí borgarfjörð að læra meira um lítið.

Ég hef undanfarið verið að undirbúa brottför og ég skil bara ekkert í því hvernig í ósköðunum mig langar að taka svona mikið af dóti með mér fyrir fimm vikur. Ég var að hugsa um það í dag hvernig ég geti farið til útlanda í 4 mánuði með 20 kg. ef bílinn minn dugar næstum ekki til að skreppa í nokkrar vikur innanlands. Ég hef reyndar rekið mig á það í gegnum tíðina að stærð töskunnar ræður yfirleitt meira um það ein ég hversu mikið dót ég tek með mér á milli staða og núna er heildartaskan svoldið stór - bíllinn minn-.

Annars er ég í frekar miklum fluttninga hug. Hjálpaði góðum vinum að flytja í vikunni og hreinlega iðaði í skinninu að flytja sjálf... það hlýtur að renna sígúna blóð í æðum mínum. Kenni því allavega um dekkhlaðinn bílinn og hef það sem afsökun á morgun ef skólafélagi minn, sem ætlar að fá far með mér, kemur ekki dótinu sínu fyrir.

Næst úr Borgarfirðinum!!!

4.7.2005

Tónleikar og súpa

Fimmtudagur:

Duran Duran stóðu undir öllum mínum væntingum - en ég fattaði að maður á aldrei að kaupa miða á svæði B, alltaf A, alltaf A. (þetta er nú kannski dæmigert fyrir mig almennt mig langar alltaf að vera svona A manneskja en er alltaf B - það á að vera A)

Eftir Duran fór ég á grandrokk og náði 4 lögum með Deep Jimi sem eru komnir saman aftur. Það var líka gaman.

Helgin:

Live8 í hljómskálagarðinum. Allt leiðinlegt nema Singapor Sling. Samt fyndið að sjá hvað ég er úr takti við íslenska tónlist almenn. Það varð allt vitlaust þegar Papar stigu á sviðið og jörðin hreinlega nötraði í látunum og mér varð svo um og ó að ég varð að fara.
Batman í bíó eftir á, skemmti mér vel, fín afþreyjing.
Á laugardaginn hjálpaði ég Láru og Sverri að pakka, fékk súpu að launum. Keypti mér líka flugmiða til Köben. Hlakka til!
Í gær fékk ég svo meiri súpu hjá þeim hér í Kef. Matarboð þar sem m.a. var verið að fagna heimsókn Sigga frá Köben. Úr varð fínasta partý.

Gaman að þekkja skemmtilegt fólk
Gaman að fá tækifæri til að búa í útlöndum
Gaman að vera til