31.5.2006

Skyr

Í gær borði ég skyr framleitt úr lífræntræktuðum dönskum beljum. Danska skyrið stóð undir öllum mínum væntingum. Það þarf greinilega ekki íslenskar beljur til að skyr sé skyr.

25.5.2006

Er dómsdagur að nálgast?

Í gær og í dag hef ég átt mjög undarlegar veður-upplifanir.

Seinni partinn í gær skrapp ég útá vídeóleigu í ágætis veðri. Þegar ég hafði verið úti í 1/2 mínútu fór ísklumpum að rigna af himnum ofan. Ég fór inná leiguna og þegar ég kom út var komin úrhellis rigning. Á 1-2 mínútnu göngu minni heim náði ég að gegnblotna, alveg inn að nærfötum. Ég held ég hafi ekki lent í hvílíkri rigningu síðan í Honduras 1989. Stuttu eftir að ég kom heim fór sólin að skína.

Í dag sat ég inní stofu og las með sólina í andlitið þegar ég heyrði þessar svakalegu þrumur, og svo aftur, og aftur. Þeim fylgdu síðan eldingar og svo enn meiri þrumur og eldingar. Allan tíman sat ég böðuð sólargeislum í sófanum nema hvað 2 regndropar vættu rúðuna.

Mér finnst þetta allt saman mjög dularfullt og spennandi.

17.5.2006

Frí

Núna er ég búin að vera í fríi héðan í nokkra daga og er að hugsa um að vera í fríi aðeins lengur.
Það er svo gaman að vera í fríi og þetta er eini kimi lífs míns sem ég get tekið frí frá þessa dagana.
Ef einhver spyr þá get ég (og þú) svarað með góðri samvisku;

Já ég (hún Sif),
nei ég (hún Sif) er í fríi!!!

Og svo held ég bara áfram að lesa og skrifa og gera allt annað sem ég get ekki tekið frí frá.

11.5.2006

Ég sat í gær undir stóru tréi, við lítið vatn, í fallegum garði, í góðu veðri. Ég borðaði fyrst samloku sem ég hafði haft með mér í nesti og las svo í bók fyrir ritgerðina mína. Ég leit af og til uppúr bókinni og horfði á fólkið og náttúruna í kringum mig. Ég hugsaði með mér að lífið yrði ekki betra.
Í dag ætla ég aftur út að lesa.

9.5.2006

Í gærkvöldi

Í gærkvöldi þegar ég var á leiðinni í háttinn heyrði ég undarlega hljóð neðan af götu. Ég leit út um gluggann og sá þar mann á gangi eftir götunni með pulsuvagn í eftirdragi. Hljóðið kom frá litlum mótor í pulsuvagninum sem aðstöðaði manninn við dráttinn. Ég hugsaði: "Humm, ok, þetta er bara maður úti að labba með pulsuvagninn sinn", og fór svo uppí rúm.

8.5.2006

Laugardagur til lukku

Helgin var alveg yndisleg, allir að springa úr hamingju í góða veðrinu. Sama hvert ég fór, allstaðar var brosandi fólk. Á laugardaginn fór ég í pikknikk með nokkrum vinum. Ég ætla nú bara að láta myndir fylgja:




5.5.2006

Nú fyrst byrjar´ða!

Byrjaði á lokaverkefninu mínu skv. skipulagi í dag. Hálfnað verk þá hafið er, heyrði ég einhversstaðar. Ég var ekki alveg í stuði til að hanga inni þannig að ég fór út með glósurnar mínar. Fór í fallegan garð og sat og skrifaði umvafin blómum, trjám og allskyns fuglum. Mér varð ótrúlega mikið úr verki.
Mission -einn dagur í einu- er alveg að virka.

4.5.2006

Eintóm hamingja

Lífið er dásamlegt!
Ég náði prófinu í gær með glæsibrag. Að því tilefni er vorið komið. Ég hélt upp á hvorutveggja með því að verja gærdeginum eftir próf niðrí bæ. Fór í pikknikk og gönguferðir til skiptis. Kom heim með sólbrennt nef í gærkvöldi - alveg æði. Enn ómótstæðilegt veður. Merkilegt hvað sólin og hitinn eru áhrifarík.
Ég ætla að fara og reyna að brenna meira á nefinu.

2.5.2006

Það er bara skemmtilegt allsstaðar

jæja, þá er ég komin heim aftur að heiman.
Búin að vera á fullu að læra fyrir próf síðan ég kom, er að fara í fyrramálið í síðasta prófið mitt í þessu námi vona allavega að ég nái. Síðan er það bara eitt stykki lokaritgerð og vörn á henni. Ég hlýt að rúlla því upp.

Ísland var annars dásamlegt. Ég hitti fullt af skemmtilegu fólki og fór út á land. Mikið svakalega er nú Ísland alltaf fallegt!

Núna er ég enn ruglaðri en áður varðandi hvar ég vil búa. Mér fannst Ísland frábært og var alveg á því að vilja bara flytja aftur. Svo lenti ég hér og mér finnst Kaupmannahöfn algjört æði og vil líka búa hér. Það virðist vera alveg hreint næstum til vandræða hvað heimurinn er nú skemmtilegur.

Þetta kemur allt í ljós. Núna ætla ég bara að ákveða klukkan hvað ég ætla að vakna í fyrramálið og læt svo framtíðina ráðast af sjálfri sér.