31.1.2006

Strætó sem virkar

Þessa dagana er ekki í miklu stuði til að skrifa hér, mikið er nú samt gaman að lifa.
Komst að því um daginn að hér virkar að hlaupa á eftir strætó ef maður rétt missir af honum því að strætó er til að þjóna fólki ,þ.e. að koma þegnum hennar hátignar á milli staða, og því stoppa bílstjórar fyrir þeim sem á þurfa að halda. Í Rvk virðist hlutverk strætóbílstjóra oft fyrst og fremst að reyna að halda áætlun fremur er að koma fólki á milli staða.
Annars er ég að velta fyrir mér hvort ég eigi ekki alfarið að hætta að taka strætó og fara bara að hljóla ALLTAF. Sádí Arabar virðast vera á góðri leið með að fara í heilagt stríð við dönsku þjóðina og sú umræða átti sér einhverntíma stað hér að ef til stríðsátaka kæmi (semsé hryðjuverkaáras í Kbh) þá yrði mjög líklega sá strætó sem ég ferðast með fyrir valin vegna þess að hann er alltaf troðinn.
Ég hugsa nú samt að ég haldi áfram að taka strætó allavega þar til mesti veturinn er yfirstaðinn en mér finnst samt voðalega leiðinlegt að það geti ekki allir verið vinir.

25.1.2006

Ljónið í snjónum

Sit hér frostbitin og horfi út í veturinn sem virðist engan enda ætla að taka. Ég hef nú hugsað um það undan farið hversvegna í ósköpunum kuldaskræfan ég hafi ekki farið aðeins sunnar. Ég hugga mig þó við það að sunnar er nú líka hnífbeittur kuldi þannig að ég er ekki að missa af neinu þar. Er því bara sátt við mitt og horfi hér á draugalega húsið með turnunum sem stendur hinu megin við götuna. Þar í garðinum býr hvítt ljón sem stingur vanalega í stúf við múrsteinsrauða húsið en er nú þakið snjóslikju og gæti því allt eins verið snjóaskafl, það hefur því dregið aðeins úr tign nágrana míns.
En hver er svo sem tignalegur eða glæsilegur í kulda og trekki?

20.1.2006

alvöru vetur

Í dag þurfti ég að snúast svoldið og lagði af stað hjólandi í ágætis veðri. Ég var þó varla komin út úr húsi þegar það byrjaði að snjóa. Það snjóaði nú ekki mikið í fyrstu en þegar ég var á heimleið kom bara hin fínasta hríð og ég lærði það að það er vont að hjóla með hríðina í augun. Raunar komst ég að þeirri niðurstöðu að það ætti að vera bannað að snjóa þar sem fólk ferðast almennt mikið um á hjólum. Þar sem ég var að berjast á móti hríðinni og passa mig voðalega vel á að klessa ekki á neinn eða neitt þegar ég þurfti að loka augum, fór að glymja í höfðinu á mér setningin -meðan laufin sofa liggja þrestirnir andvaka-. Ég veit ekki alveg hvaðan hún kemur en finnst einhvernvegin eins og hún sé úr einhverjum gömlum gamanþætti af RUV.
Stuttu eftir að ég kom heim var allt orðið hvít úti og þrátt fyrir að vera ekki mjög mikið fyrir snjó í byggðum verð ég að segja að mér fannst gaman að sjá borgina breyta um lit.
Í kvöld horfði ég svo á lokaþátt Popppunkts sem var aldeilis skemmtilegur, Til haminjgu millar!!! Þátturinn var mjög jólalegur sem olli því ásamt jólasnjónum úti að ég er komin í meiriháttar jólaskap, get bara ekki beðið eftir jólum.
Jólin sem eru ný liðin voru reyndar alveg fín en ég komst aldrei í innilegt jólaskap líkt því sem ég er búin að vera í síðasta klukkutímann eða svo. Mig langar að hendast út í búð og kaupa fullt af pökkum og pakka inn, já, og kaupa mér fallegan jólakjól og spennur í hárið.
En núna er komin nótt og jólaveðrið lemur gluggana og ég ætla að setja skóinn út í glugga og sjá hvort ég fái eitthvað í hann.

18.1.2006

Tímastjórnun

Þá er ég komin aftur í útlandið.
Það var gaman á Íslandinu og tíminn leið voðalega hratt.
Fyrirgefiði þau ykkar sem ég náði ekki að hitta, vonandi hittumst við fljótt.
Takk fyrir samveruna þau sem ég hitti.
Bless til ykkar sem ég náði ekki að kveðja.
Hæ til stórborgarinnar.

Um daginn var mér gefin tímastjórnunarbók sem ég ákvað um leið að tileinka og hagnýta mér. Viljinn hefur verið fyrir hendi en ég á frekar erfitt með að fara eftir planinu. Ég ætla samt að æfa mig. Það eina sem stenst nákvæmlega er að ég fer í skólann á þeim tíma sem ég á að fara. Hvernig er líka hægt að ákveða fyrirfram kl. hvað maður ætlar að gera hitt og þetta, ha? Jú, það er alveg hægt og ég ætla að verða aðeins betri í því. Þó ég hafi ekki náð að hitta alla og gera allt sem ég kaus á Íslandinu þá tekst það kannski næst með hjálp tímastjórnunar. Ég hef bara smá efasemdir um að það sé eins gaman að vita nákvæmlega hvað og hvenær maður ætlar að gera e-ð. Og þó, ef að allt sem maður verður hvort eð er að gera er nelgt niður þá er meiri tími í gleði.
Þar sem tímastjórnunarbókin hefur ekki gert ráð fyrir bilaðri tölvu og öðru smávægu sem komið hefur upp síðustu 3 daga hefur bókin ekki virkað sem skyldi, ég var að pæla í hvort hún væri e-ð biluð. Þegar ég hugsa þetta til enda held ég að þetta hafi meira með mig sjálfa að gera.
Búin að deila þessu með ykkur og þá er best að halda plani...

Farvel

5.1.2006

fjör fjör fjör

Nú er ég alveg að komast í stuð, það er bara alveg rétt að skella á. Frétti í dag að ég er að fara í próf á miðvikudaginn í næstu viku og á svoldið eftir að læra fyrir það. Svo er náttúrulega að halda rannsóknarleyfisplaninu góða og svo líka að hafa það gott með góðu fólki (sem ég hef reyndar gert mest af undanfarið).
Er búin að hafa það mjög fínt, það er líka gaman að hafa nóg að gera framundan og gott ef ég hlakka bara ekki helling til að komast heim aftur, verð örugglega passlega tilbúin þegar þar að kemur. Allt er e-ð svo mátulega þægilegt þessa dagana, góð byrjun á nýju ári.
Meira síðar

2.1.2006

Nýtt ár

Og gleðilegt og hamingjuríkt nýtt ár. Þakka fyrir öll þau gömlu.

Ég er enn í of miklu fríi til að segja nokkuð af viti nema hvað ég er búin að hafa það einstaklega gott um hátíðarnar. Jól í Keflavík, áramót í Grundarfirði, mjög mjög fínt.