24.2.2006

Kattarhland!

Kann einhver ráð við ketti sem finnst ekkert athugavert við að míga þar sem honum sýnist?

23.2.2006

Langt síðan síðast!

Um daginn fór ég út í búð að kaupa sódavatn sem ég hafði gleymt að kaupa þegar ég fór fyrr um daginn. Ég gekk beint að sódavatnsdeildinni og setti 7-8 1/2 lítra flöskur í körfuna mína. Þá fékk ég þá góðu hugmynd að kaupa salsasósu til að eiga með nachoflögum sem ég átti heima. Ég var hinsvegar ekki eins örugg með hvar salsasósudeildin var þannig að ég ráfaði hálvegis um aðalganginn til að kíkja inn og sjá hvar líklegast væri að finna salsasósu. Ég fann hana fljótlega og þar sem ég stend sigri hrósandi með krukkuna í hendinni finnst mér eins og ég sé rennandi blaut á sköflungnum hægra meginn. Ég átta mig ekki alveg á þessu og hristi fótinn eins og til að athuga hvort hann myndi þorna.
Ég lít í kringum mig á gólfið, sé að það er allt rennandiblautt líka og átta ég mig á því að vatnið kemur úr körfunni minni. Rétt í því kemur að mér stelpa og spyr hvort að ég sé í röð. Ég sé að ég gæti allt eins staðið i röðinni en er svo mikið að hugsa um hvað ég eigi að gera í þessu vatnsmáli að ég kem ekki upp orði, heldur bæði kinka kolli og hristi haus. Ég athuga í skyndi hversu margar flöskur leka, bara ein og hún það hefur ekki lekið nema 1-2 dl úr henni. Ég veit ekki alveg hvað ég á að gera við hana, ég fer aftur í sódavatnsdeildinna skipti leku flöskunni út fyrir nýja og fer í röð. Þar sem stend í röðinni tek ég eftir því að gólfið í búðinni lítur út eins og einhver hafi sprautað yfir það með brunaslöngu, lít aftur niður á skálmina mína og sé að hún er blaut frá skóm og hálfa leið upp á hné. Um stund leið mér eins og skemdarvargi, eins og ég hefði ráðist inní búðina vopnuð sódavatni til að gera hana subbulegri.

17.2.2006

bréfalúgan mín

Mig langar ferlega mikið til að fá áhugaverðan, skemmtilegan og spennandi póst.

Ég er orðin hundleið á að bréfalúgan boði bara bankaferðir.

Kannski ég gerist áskrifandi af fullt af blöðum og tímaritum sem ég hef ekki tíma til að lesa!

16.2.2006

kokkur

Ég bjó til alveg himneska pizzu áðan.
Held að ég sé nærri því að vera heimsins besti kokkur.

15.2.2006

Rasismi?

Um daginn sótti ég um vinnu í uppvaski. Ég hringdi og það var tekið við mig viðtal í gegnum símann (á dönsku). Maðurinn sagði mér strax að þau hefðu lent í vandræðum með að ráða útlendinga en vildi sjá hversu góð danskan mín væri. Ég skildi allt sem hann sagði og gat svarað öllum spurningum sem hann lagði fyrir mig.
Honum fannst danskan mín samt ekki nógu góð til að taka 100% þátt í samræðum og hafa það huggulegt Í PÁSUM. Hann sagði að hinu starfsfólkinu myndi bara líða illa ef ég skildi ekki allt. Svo spurði hann mig hvenær ég væri búin með skólann og ég sagði honum það, þá varð hann alveg rosalega feginn og sagði að þetta væri það flókið starf að ég þyrfti að binda mig í minnst ár, það væri svo mikið álag á starfsfólkinu að vera að kenna starfið fyrir nokkra mánuði.
Hann toppaði svo alveg sjálfan sig þegar hann kvaddi mig e-ð á þessa leið: En endilega ef einhver af dönsku bekkjafélögum þínum vantar vinnu þá biddu þau um að hringja í mig, þú ert nefnilega sú eina sem hefur hringt!!!

11.2.2006

karlmannleg borvél

Um daginn fékk ég lánaða borvél til að bora fyrir nokkrum hillum og snögum sem þurftu uppá vegg. Þegar ég kom heim með borvélina sá ég að hún var karlmannleg með eindæmum. Þrátt fyrir væga borvélafópíu lét ég slag standa og réðst til atlögu við fyrsta gatið. Lenti þá strax á fyrirstöðu og ákvað að borvélafópían mætti alveg taka yfir. Hringdi ég þá í eiganda borvélarinnar og bauð uppá kaffihlaðborð gegn nokkrum holum, því boði var tekið.
Nokkrum dögum seinna kom hann og stóð sig eins og hetja, fyrsta, önnur og þriðja hillan upp inní herbergi, og hilla upp inná baði. Þegar hann var að byrja á snögunum var bankað á dyrnar. Fyrir utan stóð kona sem ég hafði aldrei séð áður en kynnti sig sem nágranna minn og sagði svo "det er et hul ude på mit badeværelse", ég hváði nú bara og hún endurtók sig. Ég gat ekki ímyndað mér að ég væri að skilja konuna rétt og alveg viss um að nú væri ég að upplifa danskar samskiptahefðir milli nágranna og kallaði því á Ólöfu. Konan endurtók aftur - að það væri hola inná baði hjá henni - og ég sá á svipnum á Ólöfu að hér var ekki um neina háþróaða samskiptatækni að ræða heldur hefði karlmannlega borvélin fundið sér leið inní íbúð nágranna míns. Okkur var boðið að skoða holuna, sem var ansi vegleg. Ég átti erfitt með nokkuð annað en að koma í veg fyrir að fara að skellihlæja en Ólöf, í allri sinni auðmýkt, bauðst til að borga viðgerðir, grafalvarleg á svip.
Síðan höfum við ekki heyrt frá nágranna okkar en hillan inná baði er alveg að standa sig.

9.2.2006

Gestir

Það er orðið léttara yfir ljóninu, nágrana mínum, veit samt ekki hvort það sé algilt.

Margt skemmtilegt búið að gerast en það hefur ekki ratað hingað inn.

Fékk góða gesti í vikunni. Mánudagskvöld og þriðudagur fóru í túristaleik. Það var mjög notalegt, langt síðan ég hef gengið eins mikið um í miðborginni. Sumt hafði ég ekki séð síðan í haust og er gaman að sjá túristastaðina í vetrarbúiningi.
Seinni gesturinn fór ekki í túristaleik heldur voru heimsmálin rædd hér heima í stofu.

Mig langar til að vera túristi einhversstaðar þar sem er hlýtt, bjart og notalegt að ganga um og skoða e-ð áhugavert.

Eitt af því sem gerir það öðruvísi að búa í Kaupmannahöfn og Barcelona er mikil nálægð við íslendinga. Annað eru tíðari heimsóknir frá Íslandi sem er bara skemmtilegt.

Það sem er hinsvegar líkt með Kaupmannhöfn og Reykjavík eru langir vetur.

Ég þakka góðum gestum fyrir innlitið.