13.2.2005

Alveg rétt

kötturinn heitir Simbi en ekki Stebbi. Þegar ég hugsa um það verður hann ekki alveg eins gáfulegur fyrir vikið...

stærðfræði og köttur = stærðfræðiköttur?

Í fyrradag gerði ég nokkuð sem ég hafði aldrei gert áður, ég var með Jónu Grétu að skoða brúðarkjól. Ég hef aldrei farið á brúðarkjólaveiðar áður og verð að segja að það gekk vonum framar.

Í gær var ég túristi í London, fór í vísindasafnið með strákunum á meðan Jóna Gréta hélt áfram að hugsa um brúðkaupsdaginn. Safnið var stórt og fullt af allskonar raunvísindum. Ég sá þversnið af Boing-þotu og er ekkert svo viss um að ég eigi eftir að fljúga aftur. Ef ég hef einhverntíman verðið flughrædd þá er það núna. Ekki mjög traustvekjandi. Ég var mest heilluð af stærðfræðinni, ég held ég sé búin að misskilja stærðfræði í öll þessi ár. Hún virkaði mjög spennandi og full af sköpun og list. Furðulegt alveg hreint.

Í dag er ég mest búin að vera skólastelpa en fór samt í smá bíltúr um sveitina.

Það er köttur hér í heimsókn sem hegðar sér meira eins og hundur en köttur. Hann heitir Stebbi eða e-ð svoleiðis, þolir ekki lokaðar dyr og heldur að hann sé aðalhundurinn í breskri sakamálamynd sem er að þefa uppi menn og týnda hluti. Stundum horfi ég á hann og er sannfærð um að hann hafi gáfur á við mann, kannski hann sé að leysa leyndardóma lífsins meðan hann gengur sniffandi um húsið.

11.2.2005

Daumar

Ég er alveg viss um að mig dreymdi einhverja snilld, ég man bara ekkert hvað það var. Hvernær verður komin svona draumaupptökugræja?

10.2.2005

Biggin Hill

Í gær kom ég til Englands, hef nú hingað til sagt að ég væri á leið til London, sem er að sumu leiti rétt, en hér gisti ég í Biggin Hill sem er nánast upp í sveit. Hér fyrir aftan húsið eru húsdýr á beit og landbúnaður blómstrar hér í nágreninu.

Ég var að velta því fyrir mér í gær-morgun þegar ég vaknaði fyrir allar aldir og hélt í klukkustundar ferðalag með Trammi og lest út á flugvöll með heljar mikinn farangur að það væri í raun vitleysa að það sé gaman að ferðast. Ég komst að þeirri niðurstöðu að það væri gaman að koma á nýjan stað en ferðin á milli staða væri hreint ekki svo skemmtileg, að þetta væri búið að vera tóm vitleysa í mér í öll þessi ár.
Ég skipti svo reynar fljótlega um skoðun aftur, það er víst gaman að ferðast og svo mjög gaman að koma á áfangastað.

Það gerðist fullt skemmtilegt á 6 klst ferðalaginu mínu í gær. Ég lenti í þrasi við tollara sem neitaði að stimpla taxfríið mitt, handfarangurinn minn var gegnumlýstur 3 sinnum á leiðina í flugvélina og vegabréfið mitt skoðað 5 sinnum, þar af einu sinni næstum rifið í tætlur (eitthvað ótrúlegt við það).

Flugferðin var æsispennandi, ég lenti í því í fyrsta skiptið að einhver reykti inná klósetti, sá hinn sami var ekki staðinn að verki en flugfreyjurnar klöguðu í flugstjórann sem skammaði alla í vélinni um um leið og hann benti okkur á það að maður færi næsta víst í fangelsi fyrir að reykja á klósettinu.

Þegar ég var komin til London og búin að hitta Jónu Grétu, sem var svo sæt að koma á móti mér svo ég fengi ekki hjartaáfall af áreinslu við að rogast með allann farangurinn upp og niður tröppur í undergrándinu, tókum við lest í vitlausa átt og fengum góðann rúnt um neðanjarðarkerfið.
Það er sko skemmtilegt að ferðast.

Ég sá samt að það er eitt sem ég verð að læra; að ferðast létt, að læra nægjusemi og eignast svona ferða - allskonar sem tekur minna pláss og er léttara.

Það var svo svaka gaman að koma til Biggin Hill, ég hafði nú ekki hitt neina af strákunum sem hér búa síðan í júlí hreinlega. Í morgunsárið skriðu svo 2 litlir gaurar upp í rúm til mín og vildu endilega fá mig niður í morgunmat. Ég sagðist aðein ætla að kúra lengur "en það er til morgunmatur sem gerir þig mjóa" ... ég afþakkaði morgunverðarboðið engu að síður.

Í dag gleymdi ég því sem snöggvast að ég ætlaði að læra að ferðast létt. Ég fór til Bromley sem er þorp hér í nágreninu og þar fór ég inní svo ódýra búð að það hefði eiginlega verið asnalegt að kaupa ekki svoldið. Þarna er fullt af alvöru fötum sem kosta 2-4 pund, og ekkert í búðinni kostar meira en 10 pund held ég. Reyndar fékk ég efasemdir eftir að ég var búin að borga og fór að hugsa um hvort fötin væru framleidd af þrælum og að afgreiðslufólkið væru á einhverjum skíta launum því ég velti fyrir mér að ef það er raunverulega hægt að selja föt á svona lágu verði af hverju gera það ekki fleiri. Vonandi er þetta samt bara vegna þess að eigendurnir hafa ekki gróðann að leiðarljósi og þess vegna er hægt að kaupa flotta peysu á 500 kall og náttföt á 350 kall en ekki að ég hafi eignast ný föt á kostnað misnotkunnar og illmennsku.

Núna ætla ég að vanda mig við að vera skólastelpa þar til ég fer að sofa...







7.2.2005

ný fíkn

Ég held að ég sé að mynda pool - fíkn, það er alveg ótrúlega gaman að spila pool. Það er náttúrulega bara gaman að leika yfri höfuð í allskonar leikjum. Það er líka svo gaman að leika e-h sem maður verður betri í, það er t.d. erfiðara að verða betir í ólsen ólsen eftir að maður verður 6 ára eða slönguspili. Ég er hinsvegar alltaf að verða betri í pool og er alveg farin að sjá fyrir mér meistaraleg högg.

Ég hélt áfram að vera túristi í dag. Fór upp í fershenturm - sjónvarpsturninn ógurlega sem er rúmir 200 metrar á hæð. Ég var búin að hlakka ógurlega til en þegar ég kom upp fannst mér þetta ekki neitt voðalega sérstakt og ákvað að það væri ekki alltaf rétti tíminn til að vera túristi og ákvað að sleppa því í bili. Ég hef barasta ekki alltaf þolimæði til að standa endalaust í biðröð og vera með fullt af öskrandi börnum í kringum mig. Svo finnst mér líka dáltið asnalegt að standa í röð til að geta tekið mynd af einhverju sem mér finnst fallegt og flott mér hættir til að missa áhugann á myndefninu.





6.2.2005

Sunnudagur

Í dag var ég aftur dugleg í túristaleiknum og skellti mér á mannfræðisafn Berlínarborgar. Það er staðsett nokkuð langt frá því sem ég bý í einbýlishúsahverfi sem kom mér mjög á óvart.

Þetta er mjög fínt safn sem hefur að geyma allskonar dýrgripi sem rænt hefur verið frá uppruna sínum. Þarna er nokkuð mikið af 2000 ára gömlum höggmyndum og munum frá Mexico, mið- og suður-ameríku, hellingur af yngra dóti frá eyjaálfu s.s. grímur, bátar, já og heilt karlahús (vantar reyndar karlana) og munir frá Asíu og norður ameríku líka.

Skrýtnasti og asnalegasti salurinn var ljósmyndasýning þar sem vestrænir menn höfðu fengið frumbyggja til að stilla sér upp í stúdíói fyrir framan málað landslag til að reyna að ná einhverjum raunveruleika sem þegar var hverfandi vegna áhrifa vesturlandabúa.

Ég verð alltaf pínu klofin þegar ég kem inná svona safn. Forvitninni minni þykir þetta skemmtilegt en á sama tíma finnst mér munirnir hafa misst hluta af merkingu sinni, það er nú líka kannski bara ein af afleiðingum safna.

Fínn sunnudagur


5.2.2005

bcn-berlín

jæja þá er ég komin aftur til Berlínar og það er voða skemmtilegt.

Síðasta kvöldið mitt í Barcelona fórum við nokkur út að borða saman og þegar eftirrétturinn kom fóru allir að syngja "hún á afmæl´í dag" það var ekki fyrr en það var tendraður tannstöngull og honum stungið í ísinn minn að ég áttaði mig á að ég var afmælisbarn dagsins. Síðan var mér gefin rós og afmælissöngurinn aftur sunginn og svo í þriðja sinn. Þá snéri sér við stelpa af næsta borði, alveg skælbrosandi og sagðist líka eiga afmæli. Ég var ekki alveg með á nótunum enda mánuður í afmælið mitt... þetta var samt ein skemmtilegasta afmælissveisla sem mér hefur verið haldin, allavega sú lang óvæntasta.

Það var sól í Berlín í dag og ég ákvað að nota tækifærið og fara upp í sjónvarpsturninn. Þegar ég kom þangað sá ég að helmingur Berlínarbúa hafði hugsa slíkt hið sama og þegar ég var búin að bíða í nær klukkustund í biðröð og langt eftir enn ákvað ég að reyna aftur síðar. Fór í staðinn á Checkpoint Charlie safnið sem er staðsett þar sem ein af varðstöðvum var milli austur og vestur Berlínar. Það er fyrst og fremst tileinkað þeim sem freistuðust þess að flýja yfir til vesturs og er alveg hreint stórmerkilegt safn sem sýnir svo á mjög skýran hátt að frelsið er ekki sjálfgefið. Þarna vour sýnd alveg ótrúleg dæmi um hvað fólk tók til ráða til að freista þess að fá frelsi og minningar um þá sem mistóksust tilraunir sínar.

Ég er reyndar búin að sjá að ég er frekar léleg í að vera túristi allavega í þeim skilningi að hafa sterka þörf fyrir að rjúka um allt að skoða það sem stendur í bókunum. Berlín er svo sannarlega merkileg borg en kannski er ég bara svo viss um að ég komi hingað aftur að ég er ekkert hrædd um að missa af neinu. Kuldinn hérna núna er líka með þvílíkum eindæmum að það er ekki mjög vænlegt að vera mikið á flakki.