27.3.2008

Hún

Hún Kristín Björg er algjör snillingur. Það er svo mikið að gerast hjá henni núna að hver einasti dagur er fullur af ævintýrum sem aldrei fyrr. Hún er með eindæmum forvitini og nýjungagjörn og að fylgjast með henni er betra en nokkurt bíó. Um daginn tók hún t.d. upp á því að vilja bara borða skyrið sitt með tveimur skeiðum til skiptis, ömmur var venjuleg stálskeið hin var appelsínugul plastskeið. Við hverja skeið sem hún fékk smjattaði hún vel á matnum og sagði svo hátt ahhh þegar hún var búin að kyngja, eins og um hávísindalega könnun á gæðum skeiða væri að ræða. Hún Kristín er líka búin að fatta bækur og hefur mjög gaman af því að skoða þær. Í fyrradag fannst mér hún hafa verið of hljóð of lengi þar sem hún var að leika inní stofu. Ég fór og kíkti eftir henni og þá lá hún á gólfinu, hálf ofaná bók, og var að kyssa fólkið í bókinni og skælbrosti inná milli, alveg hreint í hamingju vímu. Haldiði að það séu ekki forréttindi að fá að búa með svona manneskju :)

25.3.2008

-10kg

Jibbíjei

18.3.2008

Vor í lofti

Í gærkvöldi fór ég á einleikinn Pabbann með og eftir Bjarna Hauk, alveg hrikalega fyndin sýning. Mér finnst hann gera foreldra hlutverkinu mjög skemmtileg skil og ekki síst alveg frábær ádeila á margt í samfélaginu. Það var gaman að komast loksins á leiksýningu, það var orðið allt of langt síðan síðast.
Kristín Björg heldur áfram að vera í banastuði í leikskólanum sínum. Hún er svo félagslynd og kát og finnst svo gaman að vera innan um fullt af fólki. Síðustu tvo sunnudaga hefur hún alveg verið að mygla á mér, á sunnudaginn fékk ég stelpu til að fara aðeins út að ganga með hana og til að leika aðeins við hana inni. Það var ekki nóg fyrir ungfrúnna og seinna um kvöldið komu gestir sem hún ætlaði bara ekki að sleppa út úr húsi nema að fá að fara með. Hún er algjört æði hún Kristín.
Rýrnuni var 300gr þessa vikuna, mikið vill meira eins og sagt er og í fyrsta skiptið finnst mér þetta bara alls ekki nóg :) núna telst mér til að 9.5kg séu farin og ég get ekki beðið eftir að ná 10 kg markinu.

11.3.2008

-9,2 kg

Þá eru svo lítið sem 9.2 kíló fokin og þá er Kristínar Bjargar markinu náð :)
Ég bindi góðar vonir við að ná 10kg markinu á næstu tveim vikum eða svo, þetta er ljómandi gaman allt saman.
Ég er farin að huga að því að hreyfa mig svoldið með bara, búin að fá pokahlíf fyrir göngupokann hennar Kristínar þannig að um leið og það fer aðeins að hægjast um í maga-óeirðunum þá get ég farið að þramma með hana hér um fjöll og fyrnindi. (eða bara um götur og göngustíga til að byrja með)

10.3.2008

magakvalir

Fyrsta helgin í sveitinni var ekki jafn ljúf og ég hafði gert mér vonir um. Á mig herjaða svaðaleg magakveisa með miklum verkjum sem náði hámarki í gærkvöldi, að ég vona að minnsta kosti. Ég náði þó að koma okkur aðeins betur fyrir á laugardaginn og þvo smá þvott. Í gær lagði ég svo land undir fót og fór yfir á Bíldudal. Þar áttum við yndislegan dag en minnstu munaði að ég næði ekki til baka vegna kveisunnar agalegu.
Núna er runninn nýr dagur, Kristín var glöð að komast í leikskólann og ég er kát í vinnunni og nú þarf ég að gera eitthvað skemmtilegt.
meira síðar

7.3.2008

Á Tálknafirði er gott að vera snjósleðanum á, hei!

Hér er alveg brjálaður vetur. Af og til gerir snælduvitlaust veður með blindhríð og dimmu en þess á milli skín sólin og þá lýsist fjörðurinn upp og það glampar í snjóinn í fjöllunum allt í kring. Mér hefur líka hvorutveggja við óveðrið og sólina, mér finnst þetta allt gaman, mest sólin samt eins og núna. Ég vona að hún verði með mér hérna allavega fram yfir hádegi þá ætla ég að reyna að taka mynd svo að ég geti sýnt hvað ég er að tala um :)
Kristín er hrókur alls fagnaðar á leikskólanum og skemmtir bæði sér og öðrum. Þær eru svolið hissa á hvað hún er sjálfstæð lítil kona... hún vill t.d. fá að borða brauðið sitt sjálf... enda ekki annað en sjálfsagt mál fyrst hún getur það.
Ég er búin að læra fullt nýtt í vinnunni sem er bara skemmtilegt, oft óþægilegt samt að þurfa að læra nákvæmlega allt en það gerir dagana meira spennandi.
Nú er að koma helgi og ég ætla að nýta hana í að reyna að gera enn fínna hjá mér svo að það sé nú ekki allt í drasli þegar fólkið kíkir inn um gluggana hjá mér, haha. Svo geri ég mér kannski líka ferð yfir fjallið og fer í heimsókn á Bíldudal, hver veit?

4.3.2008

-200gr

Mér til mikillar undrunar fóru 200 gr til viðbótar í síðustu viku. Ég er himinlifandi þar sem næringarleg óregla ríkti mestan hluta vikunnar. Núna er ég hinsvegar að taka stjórnina aftur og hlakka til frekari rýrnunar.
Kristín er á leikskólanm og stendur sig eins og hetja. Ég er í nýju vinnunni og stend mig líka eins og hetja, bíð nú eftir að læra meira.

3.3.2008

Komnar

Jæja, þá erum við komnar á Tálknafjörð eftir langt og tregablandið ferðalag. Þetta var sannarleg langferð þar sem margt var hugsað. Ferðalag fullt eftirvæntingar og saknaðar.
Meira síðar