30.11.2005

Enn af Jóhanni

iðnaðarmennirnir sem voru við eldhúsgluggann um daginn eru mættir aftur eftir nokkra fjarveru. Ég hef reyndar ekki séð þá (og þeir ekki mig) en þrátt fyrir það held ég áfram að reyna að vera í stuði í eldhúsinu.
Mitt helsta umræðuefnið mitt þessa dagana er hann Jóhann sem segir kannski meira um ástandið á mér en nokkuð annað. Ég eyði semsé nánast öllum mínum tíma hér innandyra með honum Jóhanni. Ég fer reyndar af og til út að viðra mig, kaupi í matinn og skrepp í skólann en þess á milli held ég mig innandyra og læri eða þykist vera að læra. Sögur af Jóhanni:
Hann skemmtir sér við það að nóttunni að brjótast inní ískápinn, með einhverjum hætti tekst honum að opna hann og ef hann finnur eitthvað áhugavert þar dreifir hann því um eldhúsgólfið svo ég hafi örugglega eitthvað að gera þegar ég vakna. Reyndar hefur verið gripið til þess ráð að líma hurðina aftur á kvöldin en stundum gleymist það með fyrrnefndum afleiðingum.
Hann ræðst gjarnan á fólk á gangi, honum finnst sérlega gaman að ráðast af fullu afli á fæturnar á fólki en stundum situr hann uppá stól og krækir klónnum í afturendan á þeim sem ganga fram hjá (ég oftast nær þar sem við erum mest ein heima).
æji, ég nenni nú eiginlega ekkert að tala um Jóhann...
Mig vantar spýtu og mig vantar sög... og fjörug lö-ög.
(ég get varla hugsað mér verra lag til að vera með á heilanum og kann ekki einu sinni allan textann, úff)

29.11.2005

Tímaleysi

Mannfólkið hefur verið ofsalega duglegt við að finna uppá nytjahlutum og óþarfa síðustu öldina eða svo. Það er komin ljósmyndatækni, útvarp, sjónvarp, tölvur, jája og tæki sem sameinar þetta allt saman, menn eru farnir að skjótast til tunglsins, rækta mat á ofurhraða, lækna hina ýmsu sjúkdóma og ég veit ekki hvað og hvað. Hvenær ætli maður geti lengt sólahringinn, já eða barasta vikuna, þegar mikið liggur við?
Mig vantar svona tímalengingartæki eða eiginlega tæki sem gerir tímann í alvöru afstæðann. Lengi lifi tíminn!

27.11.2005

Í strætó

Um daginn var maður í strætó sem ég er viss um að hefur ekki náð langt í lífinu, á almennan mælikvarða. Hann var nokkuð drukkinn, illa til fara og endurtók í sífellu, I am clockwice, saturday is clockwice og the reality is not here. Hann virtist þó kátur og hamingjusamur og hló dátt þegar hann ýtti á stans bjölluna í hvert sinn sem strætóinn fór af stað. Hann hitti kunningjakonu sína þarna í strætónum og sagði henni frá þeim hörmungum að mamma hans hefði dáið í Sómalíu þegar hann var 6 og pabbi hans dáið þegar hann var 10. Hann virtist reyndar þekkja fleiri í strætónum. Hann fór að lokum út úr strætó, á undan mér, og sagði mér á leiðinni út hvað hann heitir (ég man það því miður ekki) Ég velti fyrir mér hvert ferð hans væri heitið, hvort hann hafi haft einhvern stað til að fara á eða hvort hann myndi hoppa uppí næsta strætó og skemmta sér við að ýta á stophnappinn.

26.11.2005

Áramót í nóvember

Mugison var frábær, gæsahúð og gleði.

Skrúðganga með lögguhundum og öðrum hjálpartækjum lögreglu og sjúkraliðs var að renna fram hjá glugganum hjá mér. Veit ekki hvort þetta er liður í jólaundirbúningi borgarinnar. Hér eru annars bæði komin jól og áramót, það borgar sig náttúrulega ekkert að bíða með öll ósköpin. Jólaskraut komið útum allt og fólk farið að sprengja kínvarja og þvíumlíkt í tilefni nýja ársins.

Ég er að vanda mig við að taka ekki eftir þessu og byrja bara jólin þegar ég er búin í prófunum og halda svo upp á nýja árið eftir það.

25.11.2005

Vetur á Amager

Nú er úti norðan vindur og þá er eins gott að vera með íslenska lopasokka og önnur hlý föt. Þegar maður býr í svona huggulegu gömlu húsi er líka skynsamlegt að snúa baki í gluggann þegar maður fer að sofa til skýla sér fyrir mestu vindkviðunum.
Og ég á miða á Mugison í kvöld!!!

23.11.2005

álög

Það fylgja mér einhver iðnaðarmanna og viðhaldsálög. Síðustu 6 árin hef ég varla verið flutt í nýtt húsnæði þegar það mættir bíll dekkhlaðinn af stillönsum, verkfærum og iðnaðarmönnum. Þetta hefur gerst með öll fjöbýlishús sem ég hef búið í síðan 1999.
Í gær vaknaði ég og fór úldin á náttfötunum inní eldhús þar sem mér var heilsað með brosi af iðnaðarmanni hinu meginn við gluggann - og ég bý uppá 3ju hæð. Mér brá vitanlega enda hafði enginn stillansi verið þar kvöldinu áður og hvað þá brosandi iðnaðarmaður.
Núna þarf ég að gæta að því að vera sómasamleg til fara og í stuði þegar ég fer í eldhúsið.

21.11.2005

í dag

skilaði fyrsta synopsis-inum mínum (var bara með eitt eintak en átti að skila 3, móttókustelpan var svo elskulega að fjölfalda fyrir mig geng því að ég segði engum, úpps. Bannað að segja skriffinsku elskandi skólariturum frá þessu!)

fór allt í einu að tala dönsku (allt puðið í herskólanum að gefa af sér, ég glottle stoppaði orð sem ég kunni ekki á réttum stað og allt)

týndi lyklinum af hjólinu mínu í búðinn (þurfti að ganga heim og ná í varalykil)

keypti prentara (er loksins orðin fullgild í heima hins prentandi fólks)

fékk loksins nettengingu (eftir 4 vikna bið og þarf því ekki lengur að treysta á óaðvitandi velvilja nágranna minna)

hef verið að fríka út á netinu, sudoku, blogg, frétti og væntanlegar dagsettningar fyrir jólafrí skoðaðar.

18.11.2005

trallalla

Núna er verkefna og próftörnin að byrja hjá mér, eina ferðina enn, og líklega síðasta svona törnin á æfi minni. Ég er öll að komast í stuð, farin að borða eingöngu hollan og góðan mat og er að reyna að finna e-ð skipulag til að eiga möguleika á að skila öllu af mér og frá mér sem ég þarf. Ég hef nú gaman af þessu öllu saman en er farin að láta mig dreyma um vikufrí í sólríku landi eftir áramót. Það er voða ódýrt að fara héðan í svona óvissuhoppferð.
Vill einhver koma með mér til sólríks útlands í Janúar?

Þá er það bara að læra, læra, læra

15.11.2005

Ég er sverð

Um daginn lærði ég að skrifa nafnið mitt á arabísku og komst að því að í Egyptalandi þýðir orðið Sif sverð og er stundum mannanafn enda sverð ekkert annað en karlmennska. Ég hafði aldrei velt fyrir mér fyrr að Sif gæti þýtt e-ð út um víða veröld. Sverð er ekkert svo voðalega asnalegt en kannski þýðir Sif einhversstaðar kúkur eða e-ð þaðan af verra. Reyndar er þetta mjög fínt orð og mjög líklegt að það hafi þýðingu á hinum ýmsu tungumálum.
Ég vona bara að ég komi ekki til með að móðga neinn né svívirða á ferðalögum mínum erlendis í framtíðinni:
Halló ég heiti –haltu kjaftir-, eða
Hæ, ég er baunasúpa.

14.11.2005

Ég hef verið kitluð

Ég er nú alveg í stuði þótt ég skrifi ekki mikið hér. Ég er enn að bíða eftir að fá nettengingu heim. Ég hef verið kitluð bæði af Láru og Heiðu. Ég var eiginlega búin að ákveða að mér kitlaði ekkert en læt hér með undan hópþrýstingi og læt flakka 5 eitthvað sem fer í taugarnar á mér...semsé, ég þoli ekki:

-þegar ketti tekst að skvetta á mig vatni klukkan 5:30 að morgni til með þeim afleiðingum að ég hrekk upp og held að það sé vatn að flæða í íbúðinni fyrir ofan mig.

-þegar hávaxið og stórt fólk stillir sér fyrir framan mig á tónleikum.

-stríð og hverskonar ofbeldi.

-lygar og pretti kapítalísks hugsunarháttar þar sem endalaust er verið að reyna að selja mér e-ð, hvort heldur sem er vörur eða hugmyndir.

-að til sé fólk sem trúir því raunverulega að ALLIR í heiminum hafi aðgang að upplýsingum og geti því myndað sér upplýstar skoðanir um hvaða málefni sem er.

Ég ætla ekki að kitla neinn heldur að skella mér beint í það að lesa um hvernig kapítalismanum þykir áhrifaríkast að koma vörum sínum og hugmyndum á framfæri.

6.11.2005

Jóhann

Annar af sambýlingum mínum núna er kötturinn Jóhann sem prumpar voðalega mikið en við erum samt góðir vinir. Ég verð stundum hálf óróleg yfir því hversu vel hann fylgist með mér og velti því oft fyrir mér hvort ég sé að vanmeta eða ofmeta gáfnafar katta yfirleitt. Stundum er ég alveg sannfærð um að kettir séu flestum dýrum gáfaðri og skynsamari en stundum efast ég stórlega um að það fari nokkuð fram í höfðinu á þeim nema að þefa uppi mat og leggja sig þess á milli.
Svo eru náttúrulega kettir eins og Jóhann sem að hefur ekki séð annan kött síðan hann var 5 vikna þannig að hann hefur alfarið þurft að leita sér að fyrirmynd hjá mannfólki og það gerir spurninguna um gáfnafar flóknari. Hann t.d. hefur vanið sig á þann góða sið að heilsa þegar einhver kemur inn og heldur uppi sæmilegustu samræðum með sínu mjálmi.. Hann er líka mjög forvitinn og lærdómsfús, finnst sérstaklega áhugavert að fylgjast með öllu sem fer fram inná baðherbergi, hvort sem það er klósett- eða baðferð. Í dag fékk ég brjálæðishreingerningakast inná baði og Jóhann fylgdist með hverju tuskutaki. Og eins og fyrr er ég ekki viss hvort hann sé að reyna að læra af mér og þar með að nota gáfurnar eða e-ð annað. Þessi forvitni og að því virðist eftirtektarsemi gefa honum persónueinkenni sem minna á mjög á okkur mannfólkið og eru þar að leiðandi mjög gáfuleg, ikke?