30.9.2005

Sveitin

Fór í sveitina til Lilju Jónu í gær og fór með henni í verslunarferð um úthverfin. Fékk hálfgert brjálæðiskast í Ikea þar sem ég keytpi dót í nýja herbergið mitt. Ílengdist í sveitinn og kom ekki heim fyrr en í dag. Fór áðan að skoða nýju íbúðina og er bara mjög hrifin. Æðisleg gömul íbúð. Ég var nú ekki búin að gera mér miklar hugmyndir svosem en ég hefði ekki einu sinni átið mig dreyma um að búa í svona fallegri íbúð. Stórir gluggar með breiðum gluggakistum sem hægt er að setja púða í og horfa út. Meira að segja útsýni, sést vel til himins. Ég er alveg ótrúlega heppin alltaf hreint. Svo býr þarna kisan Kisi sem verður reyndar að öllum líkindumm fluttur út áður en ég flyt inn.
Ég er lukkuleg á leið í matarboð í nýju íbúðinni.

28.9.2005

Flutt um óákveðin tíma!

Ég er búin að fá varanlegt húsnæði, hérna bara rétt hjá og ég flyt í lok næsta mánaðar. Léttir að þurfa ekki að leita af húsnæði og vita af því að ég þurfi ekki að flytja aftur í bráð. Samhliða þessu tók ég þá ákvörðun að vera bara flutt hingað um óákveðin tíma þannig að öllu óbreyttu er ég ekki að fara að flytja til Íslands aftur um jólin. Mér finnast 4 mánuðir alltof stuttur tími til að kynnast landi og þjóð og þar sem ég er komin með gott húsnæði var þessi ákvörðun auðveld. Þar sem danir virðast með öllu óskiljanlegir íslenskum innflytjendum hér í borg verð ég að kynna mér betur þessa dularfullu þjóð. Ég kann heldur ekki við að flytja fyrr en ég er orðin vel sjálfbjarga á dönsku sem fyrir mér er jafn dularfull og fólið sem hana talar. Stundum skil ég fullt en þess á milli er ég alveg viss um að fólk er bara að bulla e-ð, ég efast um að fólk skilji alltaf hvort annað. Ég fer vonandi að bulla e-ð af ráði innan tíðar.

22.9.2005

klukk

Takk fyrir klukkið Alda!

1. Ég er ekki vön að taka þátt í keðjubréfum o.þ.h. en þegar þau eru áhugaverð tek ég þátt, sérstaklega þegar þau geta leitt til þess að ég fái gagnlausar upplýsingar um annað fólk.

2. Mér finnst gaman að hreinsa hár úr hárburstanum mínum. Ég reyni að safna vel áður en ég hreinsa hann en yfirleitt get ég ekki beðið það lengi að hreinsunin verði verulega djúsi. Mér finnst hinsvegar ekki gaman að hreinsa hár úr annara manna burstum.

3. Ég á nýja tréklossa sem ég keypti í Malmö um daginn. Þeir eru með appelsínu og sítrónumynstri og þegar ég er í þeim finnst mér vera meira sumar úti.

4. Mér finnst gaman að taka myndir af rusli og öðrum hlutum sem eru úr takt við umhverfið sitt. Mér finnst rusl áhugavert og segja meira en margt annað um okkur mannfólkið. Stundum passar rusl svo vel inní umhverfið að það er eins og það eigi bara að vera þar.

5. Ein uppáhalds lyktin mín kemur frá rúgbrauðsgerðum.

Þetta er semsé klukk-leikurinn. 5 gagnlausar staðreyndir um sjálfa mig. Og nú ætla ég að klukka Láru, Irmu Rán, Heiðu, Jónu Grétu og Yrsu Brá. Allar: vonandi læri ég e-ð nýtt og ganglaust um ykkur, Jge og Yb það er kominn tími til að þið skrifið!

21.9.2005

Búin að uppgötva svoldið af skemmtilegum kaffihúsum undanfarið. Í gær kynntisti ég einu sem er non-profit kristilegt kaffihús þar allir vinna í sjálfboðavinnu og ágóði rennur til hjálparstarfa í afríku. Mjög notarlegt og á miðvikudögum er hægt að fara í kristilega hugleiðslu, prófaði það reyndar ekki. Í dag datt ég inná hárgreiðslustofukaffihús mjög skemmtileg hugmynd. Á meðan hádegismaturinn er borðaður er hægt að horfa á fólk í klippingu og greiðslu. Hárgreiðslukonnurnar skreppa þegar þarf til að bera fram kaffi eða samloku.
Fór í dag í viðtal í dönskuskóla sem ég stefni á að fara í. Þar er danska kennd samkvæmt bandarískum hernaðarkennslu aðferðum, ég er ekki að grínast... algjör heragi, tvö próf í hverjum tíma og ef maður nær ekki þremur prófum á námskeiði þarf maður að byrja uppá nýtt. Ég kemst ekki að fyrr en 1. nóvember þannig að ég ætla að herða upp hugann þangað til. Sé svo bara til hvort þetta fyrirkomulag hentar mér.
Á meðan ég beið eftir að viðtalið byrjaði fann ég enn eitt frábært kaffihús. Í nokkrar vikur hitti ég bara á ömurlegar búllur en núna á ég allt í einu nokkur uppáhaldskaffihús.

19.9.2005

Tina

Í dag fór ég til útlanda með túristunni minni. Fórum til Malmö sem ég held nú alveg vatni yfir, allavega af svona á gráum hausdegi. Ég er samt viss um að ég fari aftur einhverntíman að prófa gufuböðin sem eru útí sjó.
Ég kynntist finnskri ógæfukonu, henni Tinu, sem settist við hliðina á mér á bekk og dundaði sér við að gera tilraunir á viðbrögðum fólks. Með henni sá ég að fólk heilsar ekki fallegu hæ-i en segir hvað klukkan er með bros á vör. Það fór ekki margt okkar á milli en við kvöddumst með kossi þegar hún stóð upp til að halda áfram tilraunum sínum á viðbrögðum fólks.

18.9.2005

Sendi túrstuna eina út að leika í dag svo ég gæti aðeins sinnt skólanum. Það er töluvert flóknara að vera hér í skóla en á íslandinu þar sem þarf að leita að lesefninu um vítt og breytt um netið. Þegar ég var loksins komin með allt lesefnið fyrir vikuna voru liðnir margir klukkutímar, komið kvöld og tími til að sinna túristanum.
Fórum á Spiseloppen í Kristjaníu að borða þar sem réttirnir eru bornir fram í ofurstærðum og með mjög furðulegum bragðsamsetningum, þar sem heitt og kalt, sætt og salt og fleiri andstæðum er att saman á mjög skapandi hátt. Okkur datt helst í hug að ástæðan væri til að koma á móts við fólk sem er búið að fá sér að reykja. Fórum síðan á mjög furðulega tónleika á Loppen, fyrir neðan veitingastaðinn, þar sem fullir danir sungu alþjóðlega drykkjusöngva, s.s. Der var brennivín í flasken, í bland við angurværar vögguvísur, klæddir í sjóliðabúininga. Í einni svipan skildi ég hvað átt er við með dönskum húmor.

17.9.2005

Jæja, þá er ég búin að vera í túristaleik í allan dag - það er nú bara frekar erfitt. Sá littlu hafmeyjuna í fyrsta skiptið án þess að það væru japanir hangandi utaní henni, hún var voða sorgleg á svipinn, saknar örugglega japananna. Við sáum fullt af hlutum sem ég hafði ekki séð áður, götur, bygginar og konunglegt glamör. Það tekur svoldið á að vera túristi ekki síst þar sem haustið er komið og kuldinn farinn að láta til sín taka. Ég er dösuð og rjóð, kát og sæl með kuldahroll.

16.9.2005

Í gærkvöldið fékk ég heimsókn frá Spáni, Eva vinkona mín ætlar að vera í heimsókn í viku. Síðasti sólahring hefur verið varið í túrisma hér og þar um borgina. Mjög fyndið að sýna borg sem ég þekki ekkert of vel sjálf og gaman að þvælast og sjá hvað vekur áhuga hjá öðrum sem er að koma hingað í fyrsta skiptið.
Æji, ég er svo syfjuð, ætla bara að fara að sofa.

15.9.2005

Átti í dag nostalgíustund(ir) með gamalli vinkonu síðan á unglingsárunum, henni Lilju Jónu. Það var mjög skemmtilegt að hitta hana og spjalla um liðna og núliðna tíð. Hún er búin að búa hér í fjölda ára en það vill svo einkennilega til að hún er að flytja aftur til Íslands eftir 2 vikur eða svo. Mér finnst frábært að fá tækifæri til að hitta hana hér og endurnýja vinskapinn því við vorum ekki búnar að vera í miklu sambandi nokkur ár áður en hún flutti hingað.
Í útlöndum verður vinnskapur stundum meiri og sterkari, allavega einhvernvegin öðruvísi. Ég hugsaði það meðan ég var hjá henni að kannski væri það ekkert svo slæmt að eiga íslenska vini í útlöndum. Ætli ég sé að komast yfir áfallið sem var í yfir íslendingamergðinni sem ég upplifði í fyrstu?

14.9.2005

Ég er ekki farin að skilja eins mikla dönsku og ég vonaði, ég hélt að eftir 3 vikur yrði ég farin að skilja helling en það hefur ekki ræst. Núna er ég búin að vera hér í rúmar þrjár vikur og hefði ég ekki fengið jógakennarann til að kenna á ensku væri ég kannski búin að meiða mig í hálsinum. Það er stelling sem hún sagði að það mætti alls ekki snúa hálsinum og hefði hún verið að tala dönsku hefði ég örugglega kíkt til hliðar til að tékka hvað ég væri að gera og hvað ég ætti að gera.
Það getur sem sé verið allt af því lífshættulegt að tala ekki dönsku, huuummmm!

13.9.2005

Í dag ætlaði ég að gera ýmislegt en gerði lítið af því. Ég gerði hinsvegar flest af því sem ég ætlaði að gera á morgun.
Það gerðist eitt í dag sem ég hefði helst viljað að hefði aldrei gerst: ég komst að því að það búa kakkalakkar hér á kolleginu. Ojbarasta. Líklega ekki í byggingunni sem ég bý í en þeir eru að dreifa sér um allt þessi andskotar. Ég er að reyna að finna eitthvað jákvætt við kakkalakkaskratta en dettur ekkert í hug. Er eitthvað jákvætt við svona sníkjudýr?
Ég ætla bara að bíta á jaxlinn og halda áfram að brosa.

12.9.2005

Í dag eignaðist ég saumavél. Mér fannst það gaman. Ég er búin að laga nýju jógabuxurnar mínar og gömlu buxurnar mínar sem flæktust í tannhjóli um daginn og skemmdust. Mér finnst Fakta skemmtileg búð, þar er hægt að kaupa allskonar furðulegt og ódýrt dót innan um matvöruna þar á meðal saumavélar og tvinnabox. Í dag er ég búin að spóka mig um í buxum sem eru ekki lengur ónýtar og buxum sem eru passlega síðar. Fljótlega ætla ég að sauma meira.

8.9.2005

Það er tvennt sem hrjáir mig einna helst þessa dagana; ég fer allt of seint að sofa og ég er alltaf svöng.
Ég held að hvorutveggja sé hluti af sama "vandamáli" tíminn líður alltof hratt. Klukkan er alltaf orðin rosa margt eða klukkan er orðin 6 klst síðan ég borðaði síðast. Þetta hentar ekki alveg svefnpurkuni og matkonuni mér en ég finn enga lausn á þessu. Ég ætla aðeins að velta þessu lengur fyrir mér.

7.9.2005

Póstur

Fékk í dag fyrsta póstinn á mínu nafni í póstkassann og leið einhvernveginn eins og ég ætti meira heima hér í útlöndum en áður, merkilegt hvaða áhrif póstur getur haft áhrfi á mann. Öll bréf og póstkort eru vel þegin í póstkassann minn.

Í dag annars:

Vaknaði:
-dáltið seint

Skóli:
-námskeið um tísku og lúxus brannsan, mér líst vel á það, held því.

Eftir skóla:
-bjúrókrasísk húsnæðisleit,
-dónalegur afgreiðslustrákur á ungfólksíbúðarleiguskrifstofunni,
-skemmtileg stelpa á framleiguskrifstofunni.

Heimleið:
-viltist, er allt í einu farin að villast daglega, kannski af því ég er hætt að fara eftir öruggum þekktum leiðum og því gerist það óhjákvæmilega...

Heima:
-póstur í kassa
- matur í malla
- bjútíslíp í rúmi

Seinna:
-fór til að hitta fólk sem ég ætlaði með í matarboð,
-beið í korter,
-fólkið símalaust,
-enginn kom,
-ég vissi ekki hvar matarboðið var
-fór heim og keypti pizzu.

Enn seinna:
-fattaði að ég misskildi tímann og var klukkkutíma of sein, úúúps.

Núna:
-veraldarvefurinn og stafræn samskipti.

Seinna:
-sjónvarp,
-bók
-svefn.

Vantar:
-Sjónvarp með textavarpi til að læra að skilja dönsku
-Standara
-Kveðju frá þér

6.9.2005

Fyrsti skóladagur

Alveg ótrúlegur dagur,

Gubbaði áður en ég fór út úr dyrunum í morgun.

Komst að því af hverju fólk vill gírahjól. Tók eftir því þegar ég var að flýta mér i skólann að það tóku allir fram úr mér. Ég reyndi að hald í við annað fólk til að vera á "eðlilegum" hraða en þegar ég var alveg að verða viss um að ég myndi takast á loft ef ég færi hraðar ákvað ég bara að gefa mér lengri tíma, einsgíra hjólið mitt er jú bara eins gíra (ég hafði samt aldrei tekið eftir því áður að ég hjólaði e-ð óvenju hægt) Ótrúlega gaman að vera á ferð í borginni svona í morgunsárið, hef ekki náð því að vera ofanjarðar svona snemma áður. Komst að því að það eru menn niðrá ráðhústorgi sem rétta manni ókeypis dagblöð meðan maður er á ferð.

Fór í ágætan tíma, hafði svo 1 klst til að fara á milli hverfa til að fara í næsta tíma, villtist svo svakalega að ég fann mig enganvegin aftur (enda komin vel af leið) reyndi að spyrja til vegar en konan sem ég spurði hafði ekki þolimæði til að skilja íslenskuslegnu dönskuna mína. Fann loksins stelpu sem skildi mig og þegar ég sá að ég var að nálgast þá stoppaði ég til að borða enda orðin aðframkomin af hungri eftir að hafa gubbað morgunmatnum. Kom í næsta tíma, fannst frekar skrýtið hvað voru fáir mættir og uppgötvaði þá að ég var í vitlausri byggingu. 1o mínútna sprettur í rétt hús, ranghalar og stigar þar til ég rambaði loksins á rétta stofu í réttu húsi. Aftur alveg fínn tíma. Er að hugsa um að halda þeim báðum bara.

Það skrýtnasta við þennan dag var samt að sitja í tímum með hardcore viðskiptafræðinemum... ég held að þetta verði mjög lærdómsrík önn.

Á leiðinni heim komu upp efasemdir um að ég myndi orka að koma mér á leiðarenda en þá gerðist það furðulega - ég lenti í hjólaumferðaöngþveiti þar sem var verið að lyftir brúnni sem ég var að fara yfir. Það var alveg ótrúlega skrýtin tilfinning að vera innanum sirka 150 aðra sem voru á hjóli, ég fylltist öll af orku sem dugði mér allaleið heim í sófa.

Síðan hefur sófinn verið ljúfur og góður.

5.9.2005

jibbííí, ég náði að klára Harry Potter

Var búin að ákveða að klára Harry Potter áður en skólinn byrjaði og í fyrradag var ég orðin vonlítil um að það myndi hafast. Tók part af gærdeginum í það að lesa sem mest. Tók svo pásu til að fá fólk í mat og fara niður og spila pool.
Um miðnætti ákvað ég að nú væri að duga eða drepast og ákvað að klára barasta bókina áður en ég færi að sofa. Það tókst og ég get drifið mig út í bjúrókrasíuna núna og byrjað í skólanum á morgun án þess að hafa það á tilfinningunni að ég sé að vanrækja Harry vin minn.
Held að þetta sé slakasta Harry Potter bókin hingað til. Kannski las ég bara svo hratt að ég missti af einhverju stórmerkilegu?!?

4.9.2005

Toffifee

Ég held ég sé búin að uppgötva mesta nammi í heimi!

3.9.2005

Electron er ekki málið hér!

Það er ennþá heilmikið sumar hér og ég er ótrúlega sátt við það.

Notaði daginn í að koma skipulagi á það sem eftir var hér í íbúðinni, keypti til þess box oþh. Gaman að þurfa ekki að rífa allt upp úr einhverjum pokum og töskum því eins og allir vita er það sem leitað er að alltaf neðst eða aftast.

Verð að muna að það er sjaldan hægt að borga með electron depetkorti í búðum hérna, sóun á tíma að vera búin að velja vörur sem ég þarf að skilja eftir við kassann af því ég get ekki borgað, fyrir mig, afgreiðslufólkið og fólkið sem er á eftir mér í röðinni.

Núna ætla ég í matarboð hjá litlu sætu frönskumælandi krökkunum!

2.9.2005

Bækur, stress og litla hafmeyjan

Ég er búin að eiga ótrúlega fínan dag.

Byrjaði á því að fara upp í skóla og reyna að koma stundatöflu saman, það tókst reyndar ekki en ég klára það á mánudaginn.

Fór svo að hitta Nadine, skiptinemastelpu frá Þýskalandi, niðrí bæ þar sem við röltum um og nutum okkar.

Við duttum inná bókamarkað við gamla kirkju, rosa stór salur með öllum mögulegum og ómögulegum notuðum bókum á 12kall (120 kall) stykkið. Nánast ógerlegt að skoða nema lítinn hluta vel, það voru nokkrar bækur sem stukku á mig úr þvögunni. Núna á ég því nokkrar nýjar bækur þ.á.m. bók í þrifnaðarháttum karlmanna og kvenna frá 1894 eftir prófesor í dýragarðs- og sálfræði.

Þegar við vorum á leiðinni heim ákváðum við að tékka hvort það væri hægt að komast ódýrt í leikhús og þá lærði ég alveg frábært trix. Það er hægt að kaupa miða á hálfvirði eftir klukkan fjögur á sýningardegi og ódýrustu miðarni eru í stæði. Trixið er því að kaupa miða í stæði þegar maður veit að það er ekki uppselt og setjast síðan í laus sæti rétt áður en sýningin byrjar (ráð frá miðasölustráknum). Okkur bauðst miðar á Litlu hafmeyjuna sem var að fara að byrja eftir 40 mín. í nýja óperuhúsinu, á 35 kall (350kall), og ákváðum að hlaupa. Fengum okkur pulsu á hlaupum, náðum í vatnastrætó og rétt náðum í óperuhúsið með bókapokana og tómatsósu í munnvikunum. Við smygluðum okkur í ágætis sæti og sýningin byrjaði. Við föttuðum fljótlega að við vorum ekki á óperusýningu heldur ballet... Sýningin var ekkert sérstök, bara ein sena sem ég fílaði vel, en óperuhúsið sjálf er algjört æði, mjög flottur arkítektúr og bara fyrir það alveg þess virði að sjá þessa sýningu. Ég er ákveðin í að gera þetta oftar.

Það er ótrúlega fínt að búa í borg þar sem hægt er að kaupa sér nokkrar bækur, fá sér að borða og fara í óperuna fyrir undir 1500 krónum. Sumstaðar er hreinlega hægt að gera margt bæði skemmtilegt og gott án þess að það þýði hrísgrjón og sojasósa seinnihluta mánaðarinns!

1.9.2005

Pære og blikk

Fann í gær fyrsta uppáhalds barinn minn í Köben; Pære Bar. Lítill subbulegur bar í 60´s stíl (örugglega ekki verið gert mikið fyrir hann síðan um miðja síðustu öld) með jazzþema og fullum heimamönnum. Það var e-ð mjög heimilislegt og notalegt við þennan stað, hlakka til að fara aftur og sjá hvort stemningin er eins.

Dagurinn í dag rólegur, pappírsvinna, hjólatúr, spjall og og...
Gaman að vera að gera fullt af hlutum í annað og þriðja skiptið, er farin að kannast vel við mig á mörgum stöðum. Var að leita bæði að kaffihúsi og búð áðan. Ég var búin að fá leiðbeiningar á hvorn stað fyrir sig. Ég fór frá kaffihúsinu að búðinni eftir þeirri leið sem ég þekkti en áttaði mig á því eftir smá tíma, mér til mikillar skemmtunar, að ég var búin að fara risastóran hring, búðin og kaffihúsið næstum því sitthvorumegin við sama hornið.

Ég er líka smá saman að læra allar hjólareglurnar. Ég hef hingað til ekki endilega verið vinsælasta manneskjan á götunum en held ég sé að ná þessu og muna að gefa stoppmerki og svona. Ég er orðin stoltur eigandi ljósa á hjólið mitt, með tveimur stillingum; stöðugu ljósi, fyrir almenna notkun og blikk-möguleika þegar ég er í extra stuði. Stefni að því að vera sem mest blikkandi í umferðinni!